Ca­semiro sá aftur rautt í marka­lausu jafn­tefli United gegn botn­liðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Casemiro vonsvikinn eftir að hafa séð rauða spjaldið koma úr vasa Anthony Taylor.
Casemiro vonsvikinn eftir að hafa séð rauða spjaldið koma úr vasa Anthony Taylor. Vísir/Getty

Manchester United og Southampton gerðu markalaust jafntefli í fjörugum leik í ensku úrvalsdeildinni í dag. Brasilíumaðurinn Casemiro fékk rautt spjald í fyrri hálfleik.

Manchester United mætti til leiks í dag eftir 4-1 sigur á Real Betis í Evrópudeildinni á fimmtudag en síðasti deildarleikur, 7-0 tapið gegn Liverpool, var þeim eflaust enn í fersku minni. Southampton sat á botni deildarinnar fyrir leikinn og því um skyldusigur að ræða hjá United.

Hinn sjóðandi heiti Marcus Rashford fékk fyrsta marktækifærið þegar Gavin Bazunu varði í tvígang frá honum á með stuttu millibili. Bruno Fernandes átti síðan skot yfir markið eftir skyndisókn og skömmu síðar fékk Carlos Alcaraz ágætt færi en Raphael Varane komst fyrir skot hans.

Á 32. mínútu fékk Brasilíumaðurinn Casemiro rautt spjald fyrir tæklingu á Alcaraz. Casemiro var örlítið óheppinn því sóli hans fór af boltanum og síðan framan á legg Alcaraz en Anthony Taylor dómari kíkti í myndavélarnar og virtist ekki í neinum vafa um að rautt spjald væri réttur dómur.

Þetta er annað rauða spjaldið hjá Casemiro á stuttum tíma og hann er á leiðinni í fjögurra leikja bann.

Undir lok fyrri hálfleiks vildu leikmenn United síðan fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Armel Bella-Kotchap í teignum en Taylor dæmdi ekki. Staðan í hálfleik 0-0.

United sótti til sigurs í síðari hálfleik og leikurinn var frekar opinn. James Ward Prowse skaut í þverslána úr aukaspyrnu og þá varði David De Gea vel þegar Theo Walcott komst í gegn. 

United fékk líka sín tækifæri og Bruno Fernandes skaut í stöngina en Bazunu var í boltanum. Mínútu síðar skaut svo Kyle Walker-Peters í stöngina hinu megin og í raun ótrúlegt að ekkert mark væri komið í leikinn.

Allt kom fyrir ekki og hvorugu liðinu tókst að skora. Lokatölur 0-0 og United er nú í þriðja sæti, ellefu stigum á eftir Manchester City og tveimur stigum á undan Tottenham í fjórða sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira