Veður

Dregur úr vindi og hiti um frost­mark

Atli Ísleifsson skrifar
Síðdegis í dag má búast við suðvestan fimm til þrettán metrum á sekúndu og stöku éljum á vesturhelmingi landsins.
Síðdegis í dag má búast við suðvestan fimm til þrettán metrum á sekúndu og stöku éljum á vesturhelmingi landsins. Vísir

Miðja lægðarinnar sem olli óveðri á landinu í gær er nú stödd um fjögur hundruð kílómetra austur af Dalatanga. Lægðin er á austurleið og fjarlægist landið svo það dregur úr vindi og úrkoman af hennar völdum norðan- og austanlands er einnig á undanhaldi.

Á vef Veðurstofunnar segir að síðdegis í dag sé áðurnefnd lægð úr sögunni og þá megi búast við suðvestan fimm til þrettán metrum á sekúndu og stöku éljum á vesturhelmingi landsins.

„Á austanverðu landinu léttir hins vegar til með björtu og fallegu veðri. Hiti kringum frostmark í dag.

Framan af morgundegi er útlit fyrir hæga breytilega átt og úrkomulaust að mestu. Gengur í norðvestan 5-10 m/s síðdegis með stöku éljum, en 10-15 og snjókoma austanlands. Frost 0 til 5 stig. Það bætir síðan heldur í vind annað kvöld,“ segir í tilkynningunni.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Hæglætisveður og úrkomulítið framan af degi. Norðvestan 5-10 m/s síðdegis og stöku él, en 10-15 og snjókoma á austanverðu landinu. Frost 0 til 5 stig.

Á miðvikudag: Vestlæg eða breytileg átt, víða bjart og kalt í veðri. Snýst í vaxandi sunnanátt um landið vestanvert seinnipartinn með slyddu eða snjókomu og síðar rigningu og hlýnar.

Á fimmtudag: Breytileg átt og slydda rigning víða um land. Hiti 0 til 4 stig. Snýst í kaldari norðanátt undir kvöld með éljum norðantil á landinu, en syttir upp annars staðar.

Á föstudag: Breytileg átt, bjart og fremur kalt framan af degi. Síðan vaxandi sunnanátt og þykknar upp sunnan- og vestanlands og hlýnar smám saman.

Á laugardag og sunnudag: Útlit fyrir stífa sunnanátt með rigningu og hlýindum, en lengst af þurrt norðaustantil.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×