Veður

Hæglætisveður framan af en lægð á morgun

Árni Sæberg skrifar
Búast má við hæglætisveðri víðast hvar á landinu í dag.
Búast má við hæglætisveðri víðast hvar á landinu í dag. Vísir/Vilhelm

Fremur hægri breytilegri átt og bjartviðri er spáð í dag víðast hvar en lítilsháttar éli á norðanverðu landinu fram yfir hádegi. Þó má gera ráð fyrir vaxandi suðaustanátt sunnan- og vestanlands síðdegis, tíu til fimmtán metrum á sekúndu undir kvöld með snjókomu eða slyddu af og til. Á morgun er gert ráð fyrir því að lægðarmiðja gangi yfir hluta landsins.

Á vef Veðurstofu Íslands segir að frost verði á bilinu eitt til átta stig framan af degi en að heldur hlýni í veðri þegar líða tekur á daginn.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að á morgun geri spár ráð fyrir að miðja lægðar gangi yfir hluta landsins. Gildandi spár á sjöunda tímanum í morgun geri ráð fyrir að miðjan taki land nærri Eyrarbakka og haldi aust-norð-austur í áttina að sunnanverðum Austfjörðum.

„Þetta þýðir að vindur mun blása af ýmsum áttum á landinu á morgun og víða má búast við slyddu eða snjókomu og hita kringum frostmark. Fyrripartinn er útlit fyrir austlæga átt, strekkingur eða allhvass vindur. Vestlægari seinnipartinn og hvessir þá upp í stormstyrk í suðausturfjórðungi landsins,“ segir í hugleiðingunum.

Þá er tekið fram að þegar miðja lægðar fer yfir landið með þessum hætti, geti tiltölulega lítil hliðrun á braut lægðarinnar valdið mikilli breytingu í veðurútliti fyrir gefinn stað.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Gengur í allhvassa eða hvassa austanátt með slyddu eða snjókomu, fyrst sunnantil. Snýst í vestan hvassviðri eða storm seinnipartinn. Hiti kringum frostmark.

Á mánudag:

Norðvestan og vestan 5-13 m/s. Dálítil snjókoma á norðanverðu landinu framan af degi, annars þurrt að mestu. Hiti um og undir frostmarki.

Á þriðjudag:

Breytileg og síðar norðlæg átt og dálítil él á víð og dreif. Frost 0 til 6 stig.

Á miðvikudag:

Vestlæg eða breytileg átt, víða bjart og kalt í veðri. Snýst í vaxandi sunnanátt um landið vestanvert þegar líður á daginn með snjókomu eða slyddu og hlýnandi veðri.

Á fimmtudag:

Sunnan- og suðvestanátt með rigningu eða slyddu, en úrkomulítið norðaustantil á landinu. Hiti 0 til 5 stig.

Á föstudag:

Breytileg átt, víða þurrt og bjart og kólnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×