Veður

Bjart og kalt í dag og von á næstu lægð í kvöld

Atli Ísleifsson skrifar
Umhleypingar eru framundan.
Umhleypingar eru framundan. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan reiknar með strekkingssuðvestanátt norðantil á landinu fram eftir morgni, en að annars megi búast við hægum vindi í dag. Bjart veður og kalt.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að næsta lægð komi í kvöld með austan strekking og úrkomu fyrst sunnantil, en norðantil í nótt. Frost á landinu í dag verður á bilinu eitt til átta stig.

Það hlánar svo verður hiti á morgun á bilinu þrjú til átta stig með strekkingssuðvestanátt og skúrum.

„Við fáum svo skammvina norðanátt með éljum annað kvöld og aðra nótt, en það léttir víða til og lægir þegar kemur fram á miðvikudag og frystir aftur.

Útlit fyrir öflugri lægð á fimmtudag með stífri sunnanátt og talsverðri rigningu og hlýindum. Þessi hlýindi verða þó skammvinn því við fáum strax í kjölfarið hressilegan útsynning með éljum.

Við fáum svo endurtekið efni um næstu helgi ef spár ganga eftir. Það er því óhætt að segja að umhleypingar séu framundan,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Suðvestlæg átt 8-15 m/s og rigning með köflum, en lengst af bjart fyrir austan. Hlýnandi, hiti 1 til 7 stig. Snýst í vestan og norðvestanátt með skúrum eða éljum seint um kvöldið.

Á miðvikudag: Norðvestanátt, víða 8-15 og él á Norður og Austurlandi, en lægir og léttir til síðdegis. Bjart sunnan- og vestanlands, en vaxandi sunnanátt og þykknar upp vestantil seinnipartinn. Frost 0 til 7 stig.

Á fimmtudag: Suðlæg átt 10-18 og talsverð rigning, en úrkomuminna norðaustantil. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast norðaustanlands. Gengur í hvassa suðvestanátt vestantil með skúrum og síðar éljum um kvöldið og fer hratt kólnandi.

Á föstudag: Stíf vestanátt með éljum og hiti um og undir frostmarki.

Á laugardag: Útlit fyrir vestanátt og dálítil él, en gengur í suðaustanátt með snjókomu eða rigningu en úrkomuminna norðaustantil. Hlýnandi veður.

Á sunnudag: Útlit fyrir sunnanátt með snjókomu, slyddu eða rigningu og hlýnandi veðri, en lengst af þurrt og frost fyrir austan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.