Enski boltinn

Haaland fékk fyndin skilaboð frá liðsfélaga á boltann

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland og Jack Grealish fagna einu af mörkunum þremur sem Norðmaðurinn skoraði í gær.
Erling Haaland og Jack Grealish fagna einu af mörkunum þremur sem Norðmaðurinn skoraði í gær. Getty/Michael Regan

„Þetta á eftir að kosta mikinn pening í kaupum á fótboltum,“ skrifaði Aymeric Laporte, leikmaður Manchester City, við mynd af þeim Erling Haaland og Phil Foden sem báðir fengu keppnisbolta til eignar eftir að hafa skorað þrennu í 6-3 sigrinum gegn Manchester United.

Hinn 22 ára Haaland hefur komið eins og sannkallaður stormsveipur inn í ensku úrvalsdeildina í fótbolta og skorað 14 mörk í fyrstu átta leikjum sínum. Þar af eru þrjár þrennur, á heimavelli gegn United, Nottingham Forest og Crystal Palace.

Hefð er fyrir því í enska boltanum að skori menn þrennu fái þeir að eiga keppnisbolta úr leiknum og er Haaland því strax búinn að eignast þrjá bolta.

Norðmaðurinn fékk eiginhandaráritanir frá liðsfélögum sínum á boltann í gær og vakti skemmtileg kveðja frá Laporte sérstaka athygli:

„Ég er búinn að skrifa á fleiri bolta út af þrennum hjá þér heldur en á samninga,“ skrifaði Laporte á boltann eins og sjá má hér að neðan.

Laporte hélt svo áfram að gantast á samfélagsmiðlum eftir leikinn og sagði ljóst að í því myndi felast umtalsverður kostnaður að Haaland fengi alltaf bolta eftir þrennurnar sínar.

Haaland þurfti aðeins átta leiki til að skora þrjár fyrstu þrennur sínar í ensku úrvalsdeildinni. Á það hefur verið bent til samanburðar að Cristiano Ronaldo, einn albesti knattspyrnumaður sögunnar, hefur skorað jafnmargar þrennur í sínum 232 leikjum í deildinni.

Ronaldo spilaði í deildinni frá 18-24 ára aldurs og sneri svo aftur fyrir ári síðan, 36 ára gamall. Erik ten Hag, knattspyrnustjóri United, sagðist eftir leikinn í gær hafa haldið Ronaldo á varamannabekknum af „virðingu“ við leikmanninn, í stað þess að láta hann taka þátt í þeirri hálfgerðu jarðarför sem fór fram.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.