Erlent

Gefið í skyn að aðgerðum á hernumdum svæðum verði svarað fullum hálsi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Albert Jónsson, alþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi sendiherra.
Albert Jónsson, alþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi sendiherra. Vísir/Einar

Orðræða rússneskra stjórnvalda hefur stigmagnast að mati sérfræðings í utanríkismálum, þar sem gefið er í skyn að hernaðaraðgerðum í úkraínskum héröðum sem Rússar hyggjast innlima verði svarað með öllum tiltækum ráðum. Tilkynnt var um herkvaðningu í Rússlandi í morgun.

Í ávarpi sem var sjónvarpað snemma í morgun tilkynnti Vladimir Pútín forseti Rússlands þjóð sinni að hann hefði skrifað undir tilskipun um herkvaðningu. Í kjölfarið greindi varnarmálaráðherra landsins frá því að þrjú hundruð þúsund varaliðar yrðu kallaðir til.

Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra Íslands í Moskvu og sérfræðingur í utanríkismálum segir ákvörðunina eiga rætur í vandræðum rússneska hersins í Úkraínu og að mannafla skorti.

„Það sem er verið að kalla út er varalið, menn sem hafa verið í hernum og hafa fengið einhverja þjálfun en það er samt óljóst hversu tilbúið þetta lið er til átaka,“ segir Albert.

Skjáskot úr ávarpi Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta um herkvaðningu sem var sjónvarpað í morgun.AP/fjölmiðlaskrifstofa rússneska forsetaembættisins

Hann segir ómögulegt að segja hvaða áhrif þetta muni hafa á stuðning við aðgerðirnar meðal rússnesku þjóðarinnar. Fréttastofa Reuters greinir þó frá því að ferðir aðra leið frá Rússlandi rjúki út. Rússnenskir karlmenn óttist að verða kvaddir í herinn og meinað að yfirgefa landið. Albert segir það ekki koma á óvart.

„Eftir innrásina hefur fjöldi manns flutt frá Rússlandi, sérstaklega ungt fólk sem kann erlend tungumál og getur fengið vinnu annars staðar. Þetta er fólksflótti og það sem kallað er Brain Drain á ensku, þeir eru að missa mjög hæft fólk. Og það er mjög líklegt að herkvaðningin muni ýta á það.“

Stigmögnun í orðræðu

Pútín var nokkuð herskár í ávarpinu í morgun; ræddi um kjarnavopn, um að tryggja öryggi á hernumdum svæðum - þar sem Rússar hafa boðað til atkvæðagreiðslu um innlimun, og sagði að Rússar muni verja sig með öllum tiltækum ráðum. 

Albert segir orðræðuna hafa stigmagnast.

„Það er verið að gefa í skyn að því verði lýst yfir að héröð í Úkraínu verði hluti af Rússlandi og þar með muni hernaðaraðgerðir gegn þessum héröðum fela í sér árás á Rússland. Hann er að gefa það í skyn að það verði brugðist við frekari aðgerðum Úkraínuhers á þessum svæðum með þeim hætti að um sé að ræða árás á Rússland.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×