Íslenski boltinn

„Sem betur fer erum við með karakter í liðinu“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sesselja Líf Valgeirsdóttir, fyrirliði Aftureldingar.
Sesselja Líf Valgeirsdóttir, fyrirliði Aftureldingar. Vísir/Hulda Margrét

„Það er búið að vera bras á liðinu en sem betur fer erum við með karakter í liðinu og það hafa aðrar stigið upp sem áttu ekki endilega að fá hlutverk í liðinu,“ sagði Alexander Aron Davorsson, þjálfari Aftureldingar í Bestu deild kvenna í fótbolta, í ítarlegu viðtali við Bestu mörkin.

Afturelding er nýliði í Bestu deildinni eftir að hafa komið upp úr Lengjudeildinni síðasta sumar. Helena Ólafsdóttir, þáttastýra Bestu markanna, kíkti í Mosfellsbæ og fór yfir stöðu mála hjá Aftureldingu. Það er engan bilbug að finna á þjálfara né leikmönnum liðsins þó það sé í fallsæti þegar fimm umferðir eftir.

Helena ræddi meðal annars við Alexander Aron, þjálfara liðsins. Farið var yfir mikil meiðsli sem hafa herjað á leikmenn Aftureldingar, þá staðreynd að félagið vill aðeins erlenda leikmenn sem eru „mun betri en þær sem eru fyrir“ og þá staðreynd að hægt er að skella sér í klippingu og með því á meðan leik stendur.

„Ég er rétt að komast í gang núna aftur síðan í byrjun febrúar,“ sagði markadrottningin Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir en hún raðaði inn mörkum fyrir Aftureldingu á síðustu leiktíð. Í ár hefur hún verið töluvert frá vegna meiðsla og aðeins náð að taka þátt í þremur deildarleikjum.

„Ég er mjög spennt að geta komist til baka og hjálpað liðinu að stíga upp,“ bætti Guðrún Elísabet við.

Guðrún Elísabet (fyrir miðju) sátt eftir að sætið í Bestu deildinni var tryggt.Hafliði Breiðfjörð

Í innslaginu var einnig rætt við aðra leikmenn liðsins og formann meistaraflokks ráðs kvenna ásamt því að skoða þá glæsilegu aðstöðu sem nú er til staðar í Mosfellsbæ. Allt þetta má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Bestu mörkin: Innslag um Aftureldingu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×