Íslenski boltinn

Í fyrsta sinn hægt að fá klippingu á fót­bolta­leik í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Ægir Líndal og Gunnar Malmquist munu sjá um að klippa fólk sem vill nýta sér það á meðan að það horfir á mikilvægan leik Aftureldingar og Þórs. Ægir sér meðal annars um hár Mosfellsingsins Ísaks Snæs Þorvaldssonar sem er markahæstur í Bestu deildinni.
Ægir Líndal og Gunnar Malmquist munu sjá um að klippa fólk sem vill nýta sér það á meðan að það horfir á mikilvægan leik Aftureldingar og Þórs. Ægir sér meðal annars um hár Mosfellsingsins Ísaks Snæs Þorvaldssonar sem er markahæstur í Bestu deildinni. @aftureldingknattspyrna/@aegirlindal

Knattspyrnudeild Aftureldingar býður upp á skemmtilega nýjung á leiknum við Þór í Mosfellsbæ í kvöld. Hægt verður að fá klippingu á meðan á leik stendur.

Áhugasamir þurfa reyndar að panta tíma fyrir fram en fá fyrir 8.000 krónur bæði klippingu og miða á leikinn, sem og drykk til að dreypa á yfir leiknum.

Það eru engir aukvisar sem verða með rakvélina á lofti því þeir sem sjá um að klippa eru þeir Gunnar Malmquist Þórsson, leikmaður handknattleiksliðs Aftureldingar, og Ægir Líndal sem meðal annars sér um hár markahæsta leikmanns Bestu deildarinnar, Ísaks Snæs Þorvaldssonar. Gunnar og Ægir starfa báðir á Studio 110.

Rétt er að taka fram að panta þarf klippingu fyrir fram, með því að senda skilaboð á @aftureldingknattspyrna, @vikingblendz eða @lindalcutz á Instagram.

Afturelding er enn í leit að sínum fyrsta heimasigri í Lengjudeildinni í sumar og mikið er undir í leiknum gegn Þór því aðeins eitt stig skilur liðin að, í 9. og 10. sæti deildarinnar. Afturelding er ofar, með sex stig eftir sjö leiki en aðeins tveimur stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×