Búist er við suðvestan hvassviðri, þrettán til átján metrum á sekúndu, á Suðausturlandi, miðhálendi og Norðurlandi eystra og vestra. Þá má búast við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, allt að 35 metrum á sekúndu. Það geti verið varhugavert fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.

Á vef Veðurstofunnar segir að lægð sem sé skammt norðvestur af landinu valdi stífri suðvestanátt í dag. Víða séu tíu til átján metrar á sekúndu, hvassast á Suðausturlandi og mið-Norðurlandi. Veðurstofan hvetur vegfarendur til að aka varlega á þeim slóðum, einkum þeir sem séu með aftanívagna eða ökutæki sem taka á sig mikinn vind.
Þar að auki sé rigning með köflum í flestum landshlutum en úrkomuminna á austanverðu landinu. Hiti sé tíu til tuttugu stig, hlýjast á Austfjörðum.
Það dragi hægt úr vindi og úrkomu í nótt og í fyrramálið. Þá verði vestlæg átt þrír til tíu metrar á sekúndu en tíu til fimmtán metrar á sekúndu suðaustantil í fyrstu. Stöku skúrir en þurrt suðaustantil. Næsta lægð komi til landsins á laugardag með suðaustanátt og rigningu, einkum sunnantil. Hiti verði þá líka á bilinu tíu til tuttugu stig og hlýjast norðaustantil.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Vestan og norðvestan 5-13 m/s en 10-15 austantil. Súld eða dálítil rigning og hiti víða 8 til 13 stig, en þurrt suðaustanlands með hita að 17 stigum. Lægir seinnipartinn.
Á laugardag: Gengur í suðlæga átt 8-15 með rigningu, en bjart með köflum norðaustanlands. Hiti 12 til 19 stig, hlýjast á Norðausturlandi.
Á sunnudag: Suðvestan 5-13 og dálítil rigning eða skúrir, en þurrt að kalla austanlands. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Austfjörðum.
Á mánudag: Norðlæg átt og víða lítilsháttar væta, en þurrt að mestu suðvestantil. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast syðst.
Á þriðjudag: Vestlæg átt og víða smáskúrir. Hiti breytist lítið.
Á miðvikudag: Útlit fyrir suðvestlæga átt með skúrum en þurrt að kalla austantil. Hiti 10 til 15 stig.