Enski boltinn

Sadio Mané nálgast Bayern München

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sadio Mané verður að öllum líkindum orðinn leikmaður Bayern München áður en næsta tímabil hefst.
Sadio Mané verður að öllum líkindum orðinn leikmaður Bayern München áður en næsta tímabil hefst. Etsuo Hara/Getty Images

Knattspyrnumaðurinn Sadio Mané er við það að innsigla félagsskipti frá Liverpool til Bayern München, en þýsku meistararnir undirbúa nú betrumbætt tilboð í Senegalann.

Liverpool hafði áður hafnað „hlægilegu“ tilboði þýska stórveldisins í leikmanninn þegar Bayern bauð 23,5 milljónir punda í Mané. Sú upphæð hefði þó getað hækkað í 30 milljónir punda í gegnum árangurstengda bónusa.

Hasan Salihamidzic, yfirmaður íþróttamála hjá Bayern, virðist þó staðráðinn í að næla í þennan þrítuga framherja. Þýsku meistararnir eru nú sagðir ætla að koma til móts við kröfur Liverpool og borga þær 42,5 milljónir punda sem Rauði herinn biður um fyrir leikmanninn.

Forráðamenn Bayern virtust nokkuð öruggir um að þeir gætu fengið Mané á gjafaprís, enda hafði félagið komist að munnlegu samkomulagi við leikmanninn. Þá á Mané aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Liverpool og félagið hefur nú þegar nælt í Darwin Núñez sem kemur í stað Mané.

Nú hafa Þýskalandsmeistararnir þó líklega áttað sig á því að þeir þurfa að leggja fram alvöru tilboð til að landa Mané. Liverpool greiddi 34 milljónir punda fyrir leikmanninn árið 2016 og félagið segir að 42,5 milljónir punda sé meira en sanngjarnt verð fyrir leikmann sem margir telja að verði ofarlega á listanum þegar valið á besta leikmanni heims fer fram.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.