Um­­fjöllun og við­töl: Breiða­blik – Kefla­­­vík 4-1 | Blikar náðu fljúgandi starti gegn slökum Kefl­víkingum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lærisveinar Óskars Hrafns Þorvaldssonar hefja leik í Bestu deildinni.
Lærisveinar Óskars Hrafns Þorvaldssonar hefja leik í Bestu deildinni. Vísir/Vilhelm

Breiðablik vann öruggan 4-1 sigur er liðið tók á móti Keflavík í fyrstu umferð Bestu-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Sigurinn var aldrei í hættu og Blikar unnu verðskuldað.

Fjörið hófst strax eftir rúma mínútu þegar Ísak Snær Þorvaldsson skoraði með skalla eftir hornspyrnu fyrirliðans Höskuldar Gunnlaugssonar. Markið var mikilvægt fyrir Blika og virtist sem öll pressa færi af þeim við þetta því þeir léku við hvurn sinn fingur í fyrri hálfleiknum.

Á 22.mínútu skoraði Ísak sitt annað skallamark þegar hann sneiddi fyrirgjöf Viktors Karls Einarssonar í fjærhornið. Viktor Karl bætti síðan við þriðja markinu þremur mínútum síðar þegar hann og Jason Daði Svanþórsson sluppu aleinir í gegnum vörn Keflavíkur.

Staðan 3-0 eftir tuttugu og fimm mínútur og þannig var staðan í leikhléi þó svo að Breiðablik hefði vel getað bætt við marki gegn heillum horfnum Keflvíkingum.

Á 53.mínútu var svo komið að áðurnefndum Jasoni Daða að skora og það markið var glæsilegt, hann sólaði sig framhjá tveimur varnarmönnum í teignum og skoraði í fjærhornið. 

Fljótlega eftir þetta gáfu Blikar aðeins eftir og Keflavík komst inn í leikinn. Þeir skoruðu á 78.mínútu þegar Patrik Johannesen skallaði sendingu Adams Ægis Pálssonar yfir Anton Ara Einarsson í marki Breiðabliks.

Þar við sat og Breiðablik fagnaði því öruggum sigri í þessari 1.umferð Bestu deildarinnar.

Af hverju vann Breiðablik?

Lengst af í dag var einfaldlega mikill gæðamunur á liðunum. Það er engin spurning um að Kópavogsliðið hefur á að skipa sterkari hóp en Keflavík og þeir sýndu það svo sannarlega. Krafturinn og áræðnin var mikil hjá Breiðablik í fyrri hálfleiknum og samspilið oft á tíðum mjög fallegt.

Keflvíkingar tefldu djarft, spiluðu með tvo framherja og tvo á miðri miðjunni og það kom í bakið á þeim gegn feykisterku Blikaliði. Í fyrri hálfleik komst Keflavík lítið sem ekkert áleiðis, héldu boltanum illa og réðu ekkert við þá grænklæddu.

Þessir stóðu upp úr:

Ísak Snær gat ekki beðið um betri byrjun í Blikatreyjunni. Fyrir utan mörkin tvö sýndi Ísak af hverju Óskar Hrafn náði í hann úr Skagaliði sem var nálægt því að falla í fyrra. Hann er gríðarlega kraftmikill og á eftir að nýtast þessu Blikaliði vel. Hann spilaði framar á vellinum en oftast áður og sýndi okkur af hverju.

Jason Daði var sömuleiðis góður hjá Blikum líkt og Viktor Karl á meðan hann var inni á vellinum. Með svona liðsframmistöðu eins og Blikar sýndu í dag eru þeir erfiðir viðureignar.

Það var fátt um fína drætti hjá Keflavík. Adam Ægir var sá sem bjó til það mesta og ógnaði.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik gekk flest allt illa hjá Keflavík. Þeir voru lítið með boltann, gerðu ekki vel þegar þeir fengu hann og voru óskynsamir oft á tíðum. Þeir voru undir á öllum sviðum en geta huggað sig við að síðustu tuttugu mínúturnar í leiknum voru ásættanlegar.

Óskar Hrafn minntist á það að hans menn hefðu slakað fullmikið á eftir miðjan seinni hálfleik. Blikar gerðu fimm skiptingar sem tóku svolítið taktinn úr þeirra leik og þó þeir hefðu getað bætt við marki undir lokin er þetta eitthvað sem Óskar ætti að hafa bakvið eyrað.

Hvað gerist næst?

Keflavík fær Val í heimsókn til Keflavíkur í næstu umferð, ekki beint auðveld byrjun að spila fyrstu tvo leikina gegn Breiðablik og Val.

Breiðablik heldur hins vegar í Frostaskjólið á mánudag og mætir þar KR sem á leik gegn Fraḿ á morgun. Svo sannarlega áhugaverður slagur framundan þar.

Óskar Hrafn: Leikmenn voru rétt stilltir í dag

Óskar Hrafn, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með sigur í fyrsta leik hjá Blikum í kvöld.Hulda Margrét

„Þetta var virkilega góður leikur hjá okkur að stærstum hluta. Fyrstu 65 mínúturnar fannst mér virkilega góðar, mikil orka og mikill kraftur en síðan gáfum við eftir og hleyptum þeim fullmikið inn í leikinn fyrir minn smekk,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks eftir 4-1 sigur á Keflavík í Bestu deildinni í kvöld.

Breiðablik var sterkari aðilinn frá byrjun í kvöld og skoruðu mark strax í upphafi, Ísak Snær Þorvaldsson skoraði eftir rúma mínútu. Frammistaða liðsins var virkilega góð og Keflvíkingar áttu í stökustu vandræðum.

„Það er bara þannig að þegar orkustigið er rétt og krafturinn er til staðar þá er þetta lið öflugt. Leikmennirnir voru rétt stilltir í dag sem er lykilatriði í þessu. Fyrsta skrefið í þessu var sterkt og menn spiluðu óttalausir og án þess að hafa áhyggjur sem er gríðarlega mikilvægt. Ég er mjög sáttur með leikinn,“ sagði Óskar í samtali við Vísi eftir leik.

Áðurnefndur Ísak Snær var að spila sinn fyrsta leik í Íslandsmóti fyrir Blika en hann kom til liðsins frá ÍA fyrir tímabilið. Hann þakkaði traustið og var kominn með tvö mörk eftir tuttugu og tvær mínútur.

„Hann færir okkur fyrst og síðast gríðarlegan dugnað. Hann er mjög líkamlega sterkur, sterkur í loftinu og með góð hlaup. Hann er alhliða virkilega góður leikmaður sem getur leyst margar stöður fyrir okkur. Hann er gríðarlega mikilvægur hlekkur í þessu liði,“ sagði Óskar Hrafn að endingu.

Sigurður Ragnar: Okkur hefur gengið betur með þá á grasi

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, sagði mikinn mun hafa verið á Keflavík og Breiðablik í dag.Vísir/Hulda Margrét

Fyrri hálfleikur Keflavíkur gegn Blikum í kvöld var slakur og tók Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkurliðsins, undir í lok leiks að þeir hefðu ekki leikið nógu vel.

„Þetta var auðvitað skelfileg byrjun að fá á sig mark eftir eina mínútu. Við vorum að tapa skallaboltum inni í teignum þar sem við eigum að vera sterkir. Við vorum fljótt komnir 3-0 undir og þá er þetta erfitt,“ sagði Sigurður Ragnar í samtali við Vísi eftir leik.

„Við héldum haus og spiluðum betur í seinni hálfleik. Við fengum okkar færi síðustu tuttugu mínúturnar og ég var alveg sáttur eftir að við gerðum skiptingarnar að það kom smá ferskleiki og við ógnuðum meira. Þetta er gríðarlega erfitt lið að spila gegn á þeirra heimavelli.“

Keflvíkingar mættu til leiks með 4-4-2 uppstillingu sem var eitthvað sem Blikar nýttu sér, þeir voru með öll tök á miðjunni í fyrri hálfleiknum og í raun um allan völl.

„Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Mér fannst mikill munur á liðunum í dag og mér fannst það líka í fyrra á móti þeim hér. Okkur hefur gengið betur með þá á grasi, þá er leikurinn kannski aðeins hægari en þeir eru mjög góðir í því sem þeir gera.“

„Þeir spila hratt og á fáum snertingum. Þeir koma með góð hlaup og fyrirgjafir og vinna vel saman, eru með mikið af mönnum í millisvæðinu sem eru tilbúnir að bjóða sig og fá boltann. Við vorum ekki nógu góðir sjálfir heldur.“


Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira