Erlent

ESB til Taívana: „Þið eruð ekki ein“

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundi Tsai Ing-wen, forseta Taívans, og Raphael Glucksmann, evrópuþingmanni frá Frakklandi.
Frá fundi Tsai Ing-wen, forseta Taívans, og Raphael Glucksmann, evrópuþingmanni frá Frakklandi. AP/Fosetaembætti Taívans

Fyrsta opinbera sendinefnd Evrópuþingsins til Taívan tilkynnti ráðamönnum þar að íbúar eyríkisins stæðu ekki einir gegn sífellt auknum þrýstingi frá Kína. Taívanar leita bandamanna um víða veröld.

„Við komum hingað með mjög einföld, mjög skýr skilaboð. Þið eruð ekki ein. Evrópa stendur með ykkur;“ sagði Raphael Glucksmann, evrópuþingmaður frá Frakklandi, við Tsai Ing-wen forseta Taívan.

Taívan á ekki í formlegum samskiptum við neitt Evrópuríki nema Vatíkanið. Forsvarsmenn flestra ríkja óttast að eiga í samskiptum við Taívan af ótta við Kommúnistaflokk Kína og mögulegar refsiaðgerðir.

Evrópuþingið samþykkti þó í síðustu viku óbindandi ályktun um að auka tengsl við Taívan.

Glucksmann sagði þessa heimsókn þingmanna vera mikilvægt fyrsta skref í að byggja upp gott samstarf milli Taívans og Evrópusambandsins.

Samkvæmt frétt Reuters er ferð evrópuþingmannanna skipulögð af nefnd Evrópuþingsins um málefni erlendra lýðræðisríkja. Meðal annars verður þessi þriggja daga ferð notuð til að ræða ógnir sem snúa að upplýsingaóreiðu og tölvuárásum.

Tasi hefur varað við því að Kínverjar beiti slíkum leiðum til að auka áhrif sín í Taívan og hefur kallað eftir því að öryggisstofnanir eyríkisins grípi til ráðstafana.

„Við vonumst til þess að stofna til lýðræðislegs bandalags gegn upplýsingaóreiðu,“ sagði hún á fundinum.

Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa heitið því að ná völdum í Taívan, með valdi ef nauðsynlegt sé.

Xi Jinping, forseti Kína, hefur sagt það „óhjákvæmilegt“ að Taívan verði hluti af Kína.

Sjá einnig: Heitir því að Taívan verði sameinað Kína á ný

Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×