Enski boltinn

Crystal Palace bjargaði jafntefli gegn Leicester | Nýliðarnir halda áfram að koma á óvart

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jeffrey Schlupp tryggði Crystal Palace eitt stig eftir að liðið lenti tveimur mörkum undir.
Jeffrey Schlupp tryggði Crystal Palace eitt stig eftir að liðið lenti tveimur mörkum undir. Mike Hewitt/Getty Images

Fjórir leikir eru á dagskrá ensku úrvalsdeildarinnar í dag og nú er þrem þeirra lokið. Crystal Palace gerði 2-2 jafntefli gegn Leicester eftir að hafa lent 2-0 undir, og Brentford vann dramatískan 2-1 sigur gegn West Ham þar sem að sigurmarkið kom í uppbótartíma.

Kelechi Iheanacho og Jamie Vardy sáu til þess að gestirnir frá Leicester fóru með 2-0 forystu inn í hálfleik þegar að liðið heimsótti Crystal Palace.

Michael Olise minnkaði muninn á 61. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður átta mínútum áður, og Jeffrey Schlupp bætti um betur þegar hann jafnaði metin fyrir heimamenn eftir að hafa verið búinn að vera inni á vellinum í heila mínútu.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og lokatölur urðu því 2-2, en liðin eru nú hlið við hlið í töflunni með átta og sjö stig, Leicester í 13. sæti og Crystal Palace sæti neðar.

Þá unnu nýliðar Brentford dramatískan 2-1 sigur þegar að liðið heimsótti West Ham. Bryan Mbeumo kom gestunum yfir eftir tuttugu mínútna leik, en Jarrod Bowen jafnaði metin fyrir West Ham tíu mínútum fyrir leikslok.

Það stefndi allt í jafntefli í London þangað til að Yoane Wissa tryggði gestunum frá Brentford dramatískan sigur á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Nýliðar Brentford sitja í sjöunda sæti deildarinnar með 12 stig eftir sjö umferðir, stigi meira en West Ham sem situr nú í því níunda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×