Enski boltinn

Ronaldo tók í gærkvöldi metið af frægasta marki Solskjær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar sigurmarki sínu fyrir Manchester United á móti Villarreal á Old Trafford í gærkvöldi.
Cristiano Ronaldo fagnar sigurmarki sínu fyrir Manchester United á móti Villarreal á Old Trafford í gærkvöldi. EPA-EFE/Peter Powell

Cristiano Ronaldo minnti á sig með dramatískum hætti í gær þegar hann tryggði Manchester United gríðarlega mikilvægan 2-1 sigur á Villarreal í Meistaradeildinni.

Villarreal komst yfir í leiknum en United mönnum tókst að jafna. Það var síðan komið langt fram í uppbótatíma þegar bjargvætturinn Ronaldo steig fram einu sinni sem oftar.

Ronaldo setur met nánast í hverju leik og í gær varð hann líka einn leikjahæstur í Meistaradeildinni frá upphafi.

Hann setti líka athyglisvert félagsmet með marki sínu í gær og svo skemmtilega vill til að hann tók gamla metið af knattspyrnustjóra sínum Ole Gunnari Solskjær.

Fyrir leikinn á Old Trafford í gærkvöldi þá var það einmitt Solskjær sem hafði skorað það sigurmark í Meistaradeildinni sem þurfti að bíða lengst eftir.

Solskjær tryggði Manchester United 2-1 sigur á Bayern München í úrslitaleik Meistaradeildarinnar vorið 1999. Það var kom eftir 92 mínútur og 17 sekúndur og tryggði United Meistaradeildarbikarinn með dramatískum hætti.

Þetta mark Solskjær er án vafa hans frægasta á ferlinum enda tryggði það ekki aðeins United sigurinn í Meistaradeildinni heldur kórónaði það líka þrennutímabilið 1998-99 þegar liðið varð enskur meistari, enskur bikarmeistari og vann Meistaradeildina.

Enginn hafði skorað sigurmark fyrir United í Meistaradeildinni seinna í leik þar til í gærkvöldi.

Mark Ronaldo í gær kom hins vegar eftir 94 mínútur og 13 sekúndur en uppbótatíminn var fimm mínútur og því að renna út þegar Portúgalinn sýndi enn á ný mikilvægi sitt.

  • Sigurmörk Manchester United í Meistaradeildinni sem hafa komið síðast í leikjum:
  • 94 mínútur og 13 sekúndur - Cristiano Ronaldo á móti Villarreal 2021
  • 92 mínútur og 17 sekúndur - Ole Gunnar Solskjær á móti Bayern München 1999
  • 91 mínúta og 56 sekúndur - Cristiano Ronaldo á móti Sporting 2007
  • 90 mínútur og 14 sekúndur - Marouane Fellaini á móti Young Boys 2018
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.