Enski boltinn

Tólf stig verða tekin af Derby vegna fjárhagsvandræða

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Derby County er í miklum fjárhagsvandræðum.
Derby County er í miklum fjárhagsvandræðum. vísir/getty

Tólf stig verða dregin af enska knattspyrnufélaginu Derby County ef félagið finnur ekki nýja eigendur á næstu dögum. Kórónuveirufaraldurinn hefur sett strik í reikninginn og félagið er í miklum fjárhagsvandræðum.

Sky Sports greinir frá þessu, en félagið er til sölu. Forsvarsmenn Derby segja að þrátt fyrir viðræður við nokkra álitlega kaupendur sé ólíklegt að félagið finni kaupanda á næstu dögum.

Derby leikur í ensku B-deildinni, og nú hefur deildin staðfest að tólf stig verði dregin af liðinu. Eins og staðan er núna er Derby með sjö stig eftir jafn marga leiki í deildinni og færi því í mínus fimm stig ef stigin verða dregin af.

Í yfirlýsingu frá klúbbnum kemur fram að Kórónaveirufaraldurinn hafi haft gríðarleg áhrif á fjárhag félagsins. Þar kemur einnig fram að faraldurinn hafi kostað þá í kringum 20 milljónir punda í töpuðum hagnaði og að þeir geti ekki lengur sinnt daglegum fjárhagslegum skyldum.

Enn fleiri stig gætu verið dregin af Derby, en reikningar félagsins frá árunum 2016, 2017 og 2018 eru nú til skoðunar eftir að félagið braut bókhaldsreglur. Félagið var sektað um 100.000 pund fyrir þau brot.

Eigandi félagsins hefur verið að reyna að selja það frá árinu 2019, en hefur ekki haft erindi sem erfiði. Tvær líklegar sölur gengu ekki í gegn, annars vegar þegar að fyrirtækið Derventio Holding reyndi að kaupa félagið í mars, og hins vegar þegar að spænski auðjöfurinn Erik Alonso reyndi að kaupa félagið í maí.

Félagið hefur þurft að fylgja ströngum reglum þegar kemur að leikmannakaupum síðan að áður en leikmannagluggi sumarsins opnaði. Þær reglur sáu til þess að Wayne Rooney, stjóri liðsins, gat einungis fengið leikmenn á frjálsri sölu og þá voru einnig ströng skilyrði varðandi launamál.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×