Enski boltinn

Ronaldo gaf öryggisverði treyjuna sína eftir leikinn í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo sést hér huga að öryggisverðinum sem hann skaut niður.
Cristiano Ronaldo sést hér huga að öryggisverðinum sem hann skaut niður. EPA-EFE/ALESSANDRO DELLA VALLE

Cristiano Ronaldo er skotfastur maður og því fékk einn óheppinn öryggisvörðurinn að kynnast á sínu eigin skinni í leik Young Boys og Manchester United í Meistaradeildinni í gær.

Í upphitun fyrir leikinn á Wankdorf leikvanginum í Bern þá endaði eitt mislukkað skot Ronaldo í öryggisverði fyrir aftan markið. Ronaldo skaut hana niður og hún fann vel fyrir þessu enda algjörlega óviðbúin.

Ronaldo sýndi aftur á móti að honum var alls ekki sama eftir að hann uppgötvaði hvað hafði gerst. Hann fór strax til hennar og bað hana afsökunar.

Ronaldo byrjaði leikinn vel og skoraði fyrsta markið en Manchester United varð síðan að sætta sig við tap eftir að hafa fengið á sig mark í uppbótartíma.

Þrátt fyrir svekkjandi úrslit þá var Ronaldo ekki búin að gleyma konunni sem hann skaut niður fyrir leikinn.

Eftir leikinn kom portúgalska goðsögnin með treyjuna sína til öryggisvarðarins og gaf henni hana.

Það er aftur á móti spurning hvort einhver af leikmönnum Young Boys hafi verið svekktir að ná ekki að skipta um treyju við Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×