Í færslu á Instagram þakkar Elliott fyrir allar kveðjurnar og stuðninginn sem hann hefur fengið og kvaðst vera hálf orðlaus yfir honum. Hann sagði að núna tæki við endurhæfing og hann myndi koma sterkari til baka eftir hana.
Í athugasemdakerfinu tjáði Elliott sig einnig um tæklingu Struijks. Hann sagði að um óhapp hafi verið að ræða og Struijk hefði ekki átt skilið að fá rauða spjaldið fyrir tæklinguna.
„Þetta var ekki honum að kenna. Þetta var ekki rautt spjald heldur bara slys og svona hlutir gerast í fótbolta. Ég kem sterkari til baka, hundrað prósent. Takk fyrir stuðninginn,“ skrifaði Elliott.
Harvey Elliott on Struijk s challenge (via Instagram) pic.twitter.com/SauQC5eR8U
— Phil Hay (@PhilHay_) September 13, 2021
Hinn átján ára Elliott byrjaði tímabilið af miklum krafti og fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína. Hann kom aftur til Liverpool í sumar eftir að hafa verið á láni hjá Blackburn Rovers í B-deildinni á síðasta tímabili.
Elliott kom til Liverpool frá Fulham fyrir tveimur árum. Hann varð yngsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann kom inn á sem varamaður í leik Fulham og Wolves 4. maí 2019, þá aðeins sextán ára og þrjátíu daga gamall.