Enski boltinn

Elliott gladdi ungan fótboltastrák sem lá við hliðina á honum á spítalanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harvey Elliott gladdi ungan fótboltastrák sem lá við hliðina á honum á spítala.
Harvey Elliott gladdi ungan fótboltastrák sem lá við hliðina á honum á spítala. getty/john powell

Harvey Elliott, sem fótbrotnaði í leik Leeds United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær, gerði góðverk þegar hann lá á spítalanum eftir leikinn. 

Elliott fótbrotnaði þegar Pascal Struijk tæklaði hann eftir klukkutíma í leik Leeds og Liverpool á Elland Road í gær. Hann var borinn af velli og fluttur á sjúkrahús. Struijk var rekinn af velli fyrir tæklinguna.

Fljótlega eftir leikinn setti Elliott inn færslu á Instagram þar sem hann þakkaði fyrir allar kveðjurnar sem honum höfðu borist.

Seinna um kvöldið bárust fréttir af því að Elliott hefði glatt ungan fótboltastrák sem lá í rúminu við hliðina á honum á spítalanum. Strákurinn hafði handleggsbrotnað í fótboltaleik.

Elliott gaf stráknum treyjuna sem hann spilaði í gegn Leeds og annan takkaskóinn sinn. Eins og sjá má hér fyrir neðan var guttinn býsna sáttur með gjöfina.

Elliott byrjaði tímabilið af miklum krafti en leikurinn gegn Leeds var hans þriðji í röð í byrjunarliði Liverpool.

Hinn átján ára Elliott kom til Liverpool frá Fulham fyrir tveimur árum. Á síðasta tímabili lék hann sem lánsmaður með Blackburn Rovers í ensku B-deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.