Erlent

Örvunar­skammtar ríku þjóðanna eins og að út­deila öðru björgunar­vesti á meðan aðrir drukkna án vestis

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alþjóðaheilbrigðismálastofnun fordæmir þjóðir sem byrjað hafa á eða stefna á að gefa örvunarskammt.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnun fordæmir þjóðir sem byrjað hafa á eða stefna á að gefa örvunarskammt. Vísir/Vilhelm

Embættismenn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru harðorðir í garð þeirra þjóða sem byrjað hafa að útdeila örvunarskömmtum á bóluefni gegn kórónuveirunni á sama tíma og milljónir manna séu enn óbólusettir víða um heim. Er þessu líkt við það að gefa einstaklingum björgunarvesti númer tvö á sama tíma og aðrir séu án björgunarvestis.

Guardian greinir frá og vísar í orð Dr. Mike Ryan, sviðstjóra neyðartilfella hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem segir að það sé siðferðislega rangt af ríkari þjóðum heimsins þar sem bólusetning gangi vel að útdeila örvunarskömmtum á meðan enn bíði margir í fátækari þjóðum heimsins eftir fyrsta skammtinum.

„Við erum að stefna að því að gefa þeim sem eru nú þegar með björgunarvesti, annað björgunarvesti, á sama tíma og við skiljum aðra eftir til að drukkna án þess að fá björgunarvesti,“ er haft eftir Ryan á vef Guardian. Þar kemur einnig fram að sérfræðingar stofnunarinnar telji að ekki séu næg vísindaleg gögn að baki nytsemi þess að gefa örvunarskammt.

Hér á landi hafa örvunarskammtar verið gefnir þeim sem fengu bóluefni Janssen, auk þess sem að á morgun verður fólki fætt 1931 eða fyrr boðið upp á örvunarskammt. Þá hefur einnig verið rætt um að þeir sem flokkist í áhættuhóp vegna Covid-19 fái einnig örvunarskammt, þó að endanleg ákvörðun um það liggi ekki fyrir.

Í kvöld var tilkynnt um það að frá og með 20. september stæði öllum Bandaríkjamönnum sem þegið hafa bólusetningu það til boða að fá örvunarskammt, svo lengi sem átta mánuðir eru liðnir frá því að þeir hafi þegið bólusetningu.

Samkvæmt tölfræðigögnum Our World in Data hefur um 24 prósent jarðarbúa verið fullbólusett og 7,9 hálfbólusett. Alls hafa um 4,8 milljarðar skammta verið gefnir á heimsvísu. Þar kemur einnig fram að aðeins 1,3 prósent af íbúum tekjulægri ríkja heims hafi þegið minnst einn skammt af bólusetningu.


Tengdar fréttir

Heimild veitt fyrir örvunarskömmtum fyrir fólk með skert ónæmiskerfi

Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur lagt blessun sína yfir af örvunarskammtar af bóluefni Pfizer og Moderna verði gefnir fólki með skerta ónæmiskerfisstarfsemi. Yfirvöld í nokkrum ríkjum, þar á meðal Íslandi, hafa gripið til þess ráðs að endurbólusetja fólk til að verjast delta-afbrigði kórónuveirunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×