Innlent

Hefðu viljað sjá betri mætingu í örvunar­bólu­setningu

Vésteinn Örn Pétursson og Birgir Olgeirsson skrifa
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Sigurjón

Framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að heilsugæslan myndi þiggja betri mætingu á meðal þeirra sem hafa verið boðaðir í örvunarskammt.

Um 11.000 fengu boðun í gær en um 5.500 mættu. Mætingarhlutfall í morgun hefur verið svipað og í gær.

„Við myndum vilja sjá fleiri. Við erum líka búin að búa okkur undir það, bæði manna og blanda efni og svona. Þá myndum við vilja koma þessu öllu út,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjá heilsugæslunni í samtali við fréttastofu.

Hún segir ekkert efni hafa farið til spillis í gær, þar sem afgangsefni hafi farið til íbúa hjúkrunarheimila.

„Það gekk mjög vel, en þess vegna erum við að gæta okkar í dag að fara alls ekki umfram.“

Þeir sem fengu bóluefni Janssen verða einnig boðaðir í örvunarskammt á morgun. Þá hafa þeir sem eru 90 ára og eldri fengið boðun í örvunarskammt á fimmtudag.

„Við erum að óska eftir því að þeir sem eru fæddir fyrri hluta árs komi milli klukkan tíu og ellefu og þeir sem eru fæddir seinni hluta árs komi milli ellefu og tólf. Þetta á við alla sem eru 90 ára og plús,“ segir Ragnheiður.

Þá er áfram bólusett í húsnæði heilsugæslunnar við Suðurlandsbraut. Þar býðst þeim sem ekki hafa þegar fengið bólusetningu eða eru hálfbólusettir að koma og fá sprautu.

„Við erum með öll efnin þar í gangi. Hvort sem það er Pfizer, Moderna, AstraZeneca eða Janssen, alltaf milli tíu og þrjú alla daga,“ segir Ragnheiður og bætir við að um 800 til 1.000 manns á dag hafi lagt leið sína í bólusetningu þar frá því sumarfríi heilsugæslunnar lauk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×