Íslenski boltinn

KR fær leik­mann frá Val á láni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bergdís Fanney og Pétur Pétursson, þjálfari Vals, er hún skipti yfir á Hlíðarenda.
Bergdís Fanney og Pétur Pétursson, þjálfari Vals, er hún skipti yfir á Hlíðarenda. Valur

Bergdís Fanney Einarsdóttir hefur verið lánuð frá toppliði Vals í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu til KR, toppliðs Lengjudeildarinnar. Mun hún klára tímabilið með KR sem reynir nú að tryggja sér sæti í Pepsi Max deildinni á næstu leiktíð.

Bergdís Fanney hefur komið sögu í sjö deildarleikjum hjá Val í sumar og skorað eitt mark. Kom það í 4-2 sigri á ÍBV í Vestmannaeyjum. Hún hefur hins vegar aðeins byrjað tvo leiki og fer nú til KR þar sem hún mun eflaust vera í lykilhlutverki.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur þessi sóknarþenkjandi leikmaður sankað að sér töluverðri reynslu. Hún lék sína fyrstu leiki með ÍA í gömlu 1. deildinni árið 2015. Eftir frábært sumar 2018 þar sem hún skoraði 15 mörk í 18 leikjum í Lengjudeildinni samdi hún við Val.

Þar hefur hún aðallega verið í aukahlutverki en fær nú sénsinn með KR og á að hjálpa liðinu upp. KR er á toppi deildarinnar með 28 stig – fimm stigum meira en FH í 2. sæti – þegar 11 umferðum er lokið.

Bergdís Fanney á að baki 93 leiki í deild, bikar og Evrópu. Hefur hún skorað í þeim 27 mörk. Þá hefur hún spilað 31 landsleik fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim 7 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×