Veður

Hlýjasti júlí­mánuður aldarinnar á Norður- og Austur­landi

Eiður Þór Árnason skrifar
Veðrið hefur leikið við Akureyringa og nærsveitunga í júlí.
Veðrið hefur leikið við Akureyringa og nærsveitunga í júlí. Vísir

Yfirstandandi júlímánuður er sá hlýjasti sem mælst hefur á Norður- og Austurlandi á þessari öld. Hið sama á við um Miðhálendið en óvenjuhlýtt hefur verið í landshlutunum að undanförnu.

Aðra sögu er að segja í Reykjavík en aðeins hafa mælst 64,3 sólskinsstundir í borginni það sem af er þessum mánuði eða um 50 færri en í meðalári. Frá þessu greinir Trausti Jónsson veðurfræðingur í nýrri samantekt sinni.

Fyrstu 20 daga júlímánaðar hefur meðalhiti á Akureyri mælst 14,4 stig sem er meira en einu stigi hærra en áður hefur sést. Er hiti nú 3,5 stigum fyrir ofan meðalhita síðustu tíu ára.

Óvenjuþurrt í veðri

Meðalhiti fyrstu 20 daga júlímánaðar í Reykjavík er 11,1 stig. Er það 0,2 stigum fyrir neðan meðalhita síðustu tíu ára og um að ræða fjórtánda hlýjasta júlímánuð á öldinni.

Hlýjasta veðurstöð landsins er nú við Upptyppinga í Ódáðahrauni þar sem meðalhiti hefur verið 14,8 stig það sem af er júlímánuði. Að sögn Trausta er óvenjulegt að hlýjast sé á hálendinu.

Þurrt hefur verið í veðri og úrkoma í Reykjavík mælist 7,9 mm í júlí. Það er aðeins fimmtungur af meðallagi og hefur aðeins tvisvar mælst jafnlítil eða minni úrkoma sömu daga á þessari öld. Ekki hefur þó verið jafnþurrt alls staðar suðvestan- og vestanlands og í Reykjavík. 

Úrkoma á Akureyri mælist 2,4 mm og hefur mjög sjaldan verið minni þessa sömu daga. 


Tengdar fréttir

Yfir 27 stiga hiti á Norðausturhorninu

Óhætt er að segja að veðrið hafi leikið við landsmenn á Norðausturhorni landsins í dag. Hiti mældist víða yfir 27 gráðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×