Íslenski boltinn

Lof og last 8. um­ferðar: Allt er fer­tugum fært, Nikola­j Han­sen, and­lausir FH-ingar og veðrið upp á Skaga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nikolaj Andreas Hansen hefur verið frábær það sem af er tímabili.
Nikolaj Andreas Hansen hefur verið frábær það sem af er tímabili. Vísir/HAG

Áttundu umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu lauk í gærkvöld. Þó enn eigi eftir 7. umferð mótsins þá var sú áttunda kláruð í gær. Hún hófst þann 12. júní og lauk svo í gær með tveimur leikjum.

Hér að neðan má sjá hvað á skilið lof og hvað á skilið last.

Lof

Gömlu mennirnir í KR

Enn og aftur eru það ellismellirnir í KR-liðinu sem stela fyrirsögnunum. Liðið vann góðan 2-0 útisigur á Leikni Reykjavík í Breiðholtinu. Pálmi Rafn Pálmason kom KR yfir og Kjartan Henry Finnbogason kláraði dæmið.

Líf í Stjörnunni

Eftir að hafa ekki unnið leik í mótinu var búist við því að menn leggðu árar í bát og gæfust upp er þeir lentu undir gegn Íslandsmeisturum Vals. Eitthvað hefur Þorvaldur Örlygsson sagt við sína menn í hálfleik en Stjarnan skoraði tvívegis í upphafi síðari hálfleiks gegn Val og vann sinn fyrsta leik á tímabilinu.

Tristan Freyr Ingólfsson fær sérstakt hrós en hann lagði upp bæði mörk Stjörnunnar í leiknum.

Nikolaj Andreas Hansen

Fyrir mót var reiknað með því að danskur framherji yrði markahæsti leikmaður deildarinnar en eflaust voru ekki margir sem reiknuðu með því að sá danski framherji héti Nikolaj Andreas Hansen.

Hansen hefur hins vegar verið frábær það sem af er tímabili og eftir að hafa skorað bæði mörk Víkinga í 2-0 sigri á FH er hann markahæsti leikmaður deildarinnar með sjö mörk. 

Last

Linir Árbæingar

Eftir frekar daufan fyrri hálfleik á Kópavogsvelli þá völtuðu Blikar einfaldlega yfir Fylki í síðari hálfleik. Þó leikurinn hafi aðeins endað 2-0 þá settu gestirnir upp litla sem enga mótspyrnu í síðari hálfleik og virtust einfaldlega hafa sætt sig við örlög sín.

Andlausir FH-ingar

Eftir að hafa tapað gegn KR og nýliðum Leiknis Reykjavíkur var búist við því að FH myndi gefa allt í leikinn gegn Víkingum. Eftir að hafa byrjað leikinn ágætlega þá stóð ekki steinn yfir steini hjá FH þegar leið á leikinn.

Var þetta í fyrsta sinn síðan árið 2003 sem FH tapar þremur leikjum í röð.

Veðrið á Akranesi

Það er kominn 16. júní og það var vart hægt að senda boltann fimm metra án þess að hann fyki aðra fimm til viðbótar upp á Skipaskaga í gær. KA-menn létu veðrið reyndar lítið á sig fá og unnu góðan 2-0 sigur en aðstæðurnar voru ekki að hjálpa liðunum þegar kom að því að spila fótbolta.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×