Erlent

Segja bóluefni AstraZeneca ekki virka fyrir 65 ára og eldri

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Töf hefur orðið á framleiðslu bóluefnis AstraZeneca sem vonir standa til að fái markaðsleyfi í Evrópu á næstu dögum.
Töf hefur orðið á framleiðslu bóluefnis AstraZeneca sem vonir standa til að fái markaðsleyfi í Evrópu á næstu dögum. Getty/Konstantinos Zilos

Bóluefni AstraZeneca er sagt ekki munu fá markaðsleyfi í Evrópu til bólusetningar þeirra sem eru 65 ára og eldri. Ástæðan mun vera sú að bóluefnið tryggi eldra fólki ekki næga vörn gegn sjúkdómnum. Þessum fullyrðingum neitar aftur á móti AstraZeneca.

Sænska Aftonbladet greinir frá þessu og vitnar í umfjöllun þýskra fjölmiðla sem byggja á heimildum innan úr innsta hring þýskra stjórnvalda.

„Þetta er algjörlega rangt,“ segir Christina Mamberg Hägerstrand, fjölmiðlafulltrúi AstraZeneca. Nokkrir þýskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið og segja að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni ekki samþykkja bóluefni fyrirtækisins til nota við bólusetningu þeirra sem eru 65 ára eða eldri. Vitnað er til heimildamanna sem standa nærri þýsku ríkisstjórninni.

Að því er þýski miðillinn Bild greinir frá, veitir bóluefni fyrirtækisins aðeins tíu prósent vörn gegn veirunni í tilfelli þeirra sem eldri eru. Þá hefur blaðið Handelsblatt eftir heimildarmönnum að vörnin fari allt niður í átta prósent.

Í umfjöllun beggja miðla segir að á þessum forsendum muni framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mögulega ekki samþykkja notkun bóluefnisins fyrir 65 ára og eldri.

Í tölvupósti til Aftonbladet segir fjölmiðlafulltrúi AstraZeneca þetta ekki vera rétt. „Upplýsingar um að virkni bóluefnis AstraZeneca/Oxford sé svo lítil sem 8% í tilfelli fullorðinna yfir 65 ára eru algjörlega rangar,“ segir í bréfinu. Þá er vísað til rannsókna sem gerðar hafi verið á bóluefninu sem fjallað hafi verið um í fræðiritinu Lancet sem sýni fram á mikla virkni bóluefnisins, þar sem eldra fólk hafi í hundrað prósent tilvika myndað mótefni gegn sjúkdómnum eftir að hafa fengið síðari skammt bólusetningar.

Fyrirtækið sætir þegar miklum þrýstingi af hálfu Evrópusambandsins vegna tafa sem orðið hafa við framleiðslu efnisins. Þess er vænst að bóluefni AstraZeneca fái markaðsleyfi í Evrópu við lok þessarar viku.

Steinar Madsen, framkvæmdastjóri lækninga hjá norsku lyfjastofnuninni vildi ekki tjá sig um efni umfjöllunar þýsku miðlanna þegar norska blaðið VG leitaði viðbragða hans. „Ég held að við ættum að halda ró okkar,“ sagði Madsen við VG og benti á að í vikunni ætti eftir að fjalla um bóluefni AstraZeneca, meðal annars á vettvangi Lyfjastofnunar Evrópu og í vísindasiðanefnd, þar sem fjallað verði um öll álitaefni sem kynnu að koma upp er varða bóluefnið, virkni þess og aukaverkanir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×