Íslenski boltinn

Segir son sinn afar vinnusaman og hann minni um margt á Jón Rúnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson stýrir íslenska karlalandsliðinu næstu tvö árin.
Arnar Þór Viðarsson stýrir íslenska karlalandsliðinu næstu tvö árin. getty/Marc Atkins

Faðir nýs þjálfara karlalandsliðsins í fótbolta hefur trú á syni sínum og segir hann búa yfir mikilli vinnusemi.

„Ég veit það ekki. Það verður að koma í ljós. Fer það ekki mikið eftir því hvernig gengur?“ sagði Viðar Halldórsson skellihlæjandi þegar blaðamaður Vísis spurði hann hvernig væri að vera orðinn pabbi landsliðsþjálfara.

Viðar er formaður FH, fyrrverandi leikmaður fótboltaliðs félagsins og íslenska landsliðsins. Og jú, pabbi Arnars Þórs Viðarssonar, nýs þjálfara karlalandsliðsins.

„Hvað á maður að segja? Þetta hefur alltaf verið fótbolti hjá mér og strákunum. Maður er orðinn löggiltur og það má segja að síðustu fimmtíu árin hafi þetta bara verið fótbolti. Upp og niður, bæði gleði og fýla,“ sagði Viðar.

Hann og eiginkona hans, Guðrún Bjarnadóttir, eiga þrjá syni sem allir hafa lagt fótboltann fyrir sig. Arnar er elstur (fæddur 1978) og síðan koma Davíð Þór (fæddur 1984) og Bjarni Þór (fæddur 1988). Þeir léku allir sem atvinnumenn og eiga allir landsleiki á ferilskránni.

Viðar í símanum í viðtali á Sýn ásamt sonum sínum, Bjarna Þór og Davíð Þór.ksí

„Ég efast ekkert um það að hann mun gera sitt besta. Hann hefur allt til að geta þetta en svo verður að sjá hvernig gengur. En auðvitað verður öðruvísi að horfa á landsleiki, það hlýtur að vera,“ sagði Viðar.

„Ég hef alla tíð verið stoltur af honum og hinum. Arnar hefur „maxað“ sinn feril bæði sem leikmaður og þjálfari með mikilli vinnusemi. Það hefur ekki vantað. Hann var aldrei neinn Messi í fótboltanum en hafði eitthvað annað sem fleytti honum áfram.“

Jón Rúnar Halldórsson (lengst til hægri) var lengi í forsvari fyrir knattspyrnudeild FH.vísir/daníel

Viðar segir að Arnar minni stundum á bróður hans, Jón Rúnar, sem var lengi formaður knattspyrnudeildar FH.

„Hann er að mörgu leyti líkur föðurbróður sínum, Jóni Rúnari Halldórssyni. Þeir eru ákafir og hella sér í verkefnið og þá er ekkert annað sem kemst að. Hann leggur sig mikið í þetta og vinnusemin er rosaleg,“ sagði Viðar.

En bjóst Viðar við því að sonur hans færi út í þjálfun þegar hann hætti að spila?

„Hann hafði alla tíð allt í það, eða manni fannst það. En ekkert endilega. Ég hefði alveg eins getað séð hann fara í eitthvað annað. En eftir að hann byrjaði var ekkert aftur snúið,“ svaraði Viðar sem var viðloðandi þjálfun á árum áður.

„Það hefur mikið breyst síðan þá og hver hefur sína sýn á þetta. Tæknin er orðin svo mikil. Þessir yngri þjálfarar í dag vinna allt öðruvísi heldur en áður var gert. Synir sínir segja oft við mig: Pabbi, athugaðu að það er komið árið 2020, ekki 1990,“ sagði Viðar að lokum.


Tengdar fréttir

FH fékk bætur fyrir Eið

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að sambandið hafi borgað FH bætur fyrir að losa Eið Smára Guðjohnsen úr starfi hjá Hafnarfjarðarliðinu.

Svona var fundurinn er Arnar og Eiður voru kynntir

Vísir var með beina útsendingu og beina textalýsingu frá blaðamannafundi KSÍ þar sem Arnar Þór Viðarsson var kynntur sem nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.

Logi ráðinn þjálfari FH

Logi Ólafsson er tekinn við FH í Pepsi Max deild karla og mun stýra liðinu á næstu leiktíð. Eiður Smári Guðjohnsen er hættur hjá félaginu og tekinn til starfa hjá KSÍ.

Hver er Arnar Þór Viðarsson?

Arnar Þór Viðarsson hefur verið ráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta til næstu tveggja ára. En hver er Arnar Þór Viðarsson?

Segja að Eiður hætti með FH

Samkvæmt heimildum vefmiðilsins 433.is mun Eiður Smári Guðjohnsen láta af störfum sem þjálfari FH í Pepsi Max deild karla eftir að hafa verið ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×