Fótbolti

Arnar Þór: Spenntir fyrir að fá Lars með sér og funda með honum eftir áramót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck var rekinn sem þjálfari norska landsliðsins á dögunum.
Lars Lagerbäck var rekinn sem þjálfari norska landsliðsins á dögunum. Getty/Trond Tandberg

Það er stefnan hjá nýjum landsliðsþjálfara að fá Lars Lagerbäck með sér inn í teymi landsliðsins á næsta ári.

Arnar Þór Viðarsson var kynntur sem nýr þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu í dag og hann sagði frá samskiptum sínum við Lars Lagerbäck á blaðamannafundi í dag.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, hafði áður sagt að Knattspyrnusambandið væri búið að ræða við Lars Lagerbäck um einhvers konar aðkomu að íslenska A-landsliðinu og Arnar sagði meira frá þessu á fjarfundi með fjölmiðlamönnum í dag.

Arnar segist hafa talað við Lars Lagerbäck um hugsanlega aðkomu hans að íslenska A-landsliðinu.

„Við höfum talað við Lars og erum mjög spenntir að hafa hann með okkur í undankeppni HM,“ sagði Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundinum í dag.

Arnar segir að reynsla Lars gæti skipt sköpum sem og hans gæði. Lars var þjálfari íslenska A-landsliðsins frá 2011 til 2016 og kom íslenska landsliðinu á sitt fyrsta stórmót á EM 2016 en þá var Heimir Hallgrímsson með honum.

„Ef hann er tilbúinn í að koma og aðstoða okkur þá muni það styrkja allt umhverfið í kringum landsliðið. Lars er nýhættur með norska landsliðið og er ekki búinn að gera upp hug sinn varðandi næstu skref. Við skiljum það alveg,“ sagði Arnar.

Arnar sagði enn fremur frá því að eftir áramót munu Arnar og starfsfólk KSÍ hitta Lars og sjá hvernig framhaldið verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×