Arnar og Eiður eru jafnaldrar, fæddir 1978, léku lengi saman í íslenska landsliðinu og voru herbergisfélagar þar. Þeir störfuðu saman með U-21 árs landslið Íslands og taka aftur upp þráðinn hjá A-landsliðinu.
„Við erum stoltir að fá þetta tækifæri og erum tilbúnir í þetta ævintýri. Þetta eru stór verkefni og maður gerir þetta ekki einn. Öll þjóðin fylkir sér á bak við liðið eins og undanfarin ár. Það taka allir þátt í þessu,“ sagði Arnar á blaðamannafundi KSÍ í dag.
Nýi landsliðsþjálfarinn gæti ekki verið ánægðari með aðstoðarmanninn sinn.
„Það þarf að vera hundrað prósent traust milli aðila og ég ber 110 prósent traust til Eiðs Smára. Að hafa einhvern við hlið sér sem hugsar eins um fótbolta er gulls ígildi. Ég hefði ekki viljað neinn annan í þetta verkefni með mér,“ sagði Arnar.
Þeir Eiður stýra Íslandi í fyrsta sinn gegn fjórföldum heimsmeisturum Þýskalands í undankeppni HM í mars á næsta ári.