Fótbolti

Nýju landsliðsþjálfararnir spiluðu 38 A-landsleiki saman á sínum tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sést hér í byrjunarliði íslenska A-landsliðsins fyrir leik á móti Skotum á Laugardalsvellinum árið 2002.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sést hér í byrjunarliði íslenska A-landsliðsins fyrir leik á móti Skotum á Laugardalsvellinum árið 2002. Getty/Vladimir Rys

Arnar Þór Viðarsson þekkjast ekki aðeins vel sem samstarfsmenn þeir voru líka liðsfélagar í landsliðinu í tæpan áratug.

Arnar Þór Viðarsson var í dag ráðinn sem nýr þjálfari íslenska A-landsliðsins í knattspyrnu og mun hann hafa Eið Smára Guðjohnsen sér til aðstoðar.

Það er athyglisvert að skoða aðeins landsliðsferil þeirra Arnars og Eiðs Smára nú þegar þeir eru teknir við A-landsliðinu en þeir voru saman í landsliðinu í átta ár.

Samtals spiluðu þeir félagarnir 150 A-landsleiki, Eiður Smári Guðjohnsen 88 og Arnar Þór Viðarsson 52.

Nýju landsliðsþjálfararnir spiluðu samtals 38 A-landsleiki saman á sínum tíma frá 1999 til 2007.

Guðjón Þórðarson var fyrsti A-landsliðsþjálfarinn til að tefla þeim báðum saman í leik á móti Andorra 4. septemner 1999 en þá komu þeir báðir inn á sem varamenn í 3-0 sigri á Laugardalsvellinum.

Arnar Þór kom inn á sem varamaður á 28. mínútu en Eiður Smári Guðjohnsen á 78. mínútu. Eiður Smári skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark í þessum leik. Arnar var þarna á sínu öðru ári hjá Lokeren en Eiður Smári var farinn að spila með Bolton.

Arnar Þór og Eiður Smári voru fyrst saman í byrjunarliðinu hjá A-landsliðinu í leik á móti Norður Írlandi á Laugardalsvellinum 11. október 2000. Ísland vann leikinn 1-0 með marki Þórðar Guðjónssonar á 88. mínútu en þjálfari liðsins var þá Atli Eðvaldsson. Sigurmarkið kom eftir aukaspyrnu frá Eiði Smára og skallasendingu frá Heiðari Helgusyni.

Arnar Þór Viðarsson skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark í sínum 39. A-landsleik en það var í 4-1 sigri í vináttulandsleik á móti Suður-Afríku á Laugardalsvellinum. Markið kom einmitt eftir stoðsendingu frá Eiði Smára Guðjohnsen.

Alls voru Arnar og Eiður saman í byrjunarliði í 26 af þessum 38 A-landsleikjum sem þeir spiluðu saman og þeir voru líka oftar saman í hóp þar sem annar hvor eða báðir spiluðu ekki.

Síðasti A-landsleikur þeirra saman endaði ekki vel en það var jafnframt 52. og síðasti A-landsleikur Arnars Þórs Viðarssonar. Þegar hann spilaði sinn síðasta A-landsleik þá var hann kominn upp í 17. sæti yfir leikjahæstu landsliðsmenn Íslands. Arnar situr í dag í sæti númer 35.

Leikurinn var 3-0 tap á móti Liechtenstein í Vaduz í undankeppni EM 17. október 2007. Arnar fékk ekki fleiri tækifæri með A-landsliðinu eftir það því nýr landsliðsþjálfari, Ólafur Jóhannesson, valdi hann ekki í sitt landslið.

Eiður Smári Guðjohnsen lék aftur á móti 39 landsleiki það sem eftir lifði af hans landsliðsferli en Eiður var í kringum A-landsliðið í níu ár í viðbót.


Tengdar fréttir

Segja að Eiður hætti með FH

Samkvæmt heimildum vefmiðilsins 433.is mun Eiður Smári Guðjohnsen láta af störfum sem þjálfari FH í Pepsi Max deild karla eftir að hafa verið ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×