Fótbolti

Eiður Smári vill ekki heyra á „Gamla bandið“ minnst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson tóku við U21-landsliðinu í ársbyrjun 2019 en nú tæpum tveimur árum síðar hafa þeir tekið við A-landsliðinu.
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson tóku við U21-landsliðinu í ársbyrjun 2019 en nú tæpum tveimur árum síðar hafa þeir tekið við A-landsliðinu. VÍSIR/VILHELM

Nýju landsliðsþjálfararnir ætla ekki að hreinsa til í íslenska landsliðinu heldur velja bestu leikmennina í landsliðið.

Eiður Smári Guðjohnsen, nýr aðstoðarþjálfari íslenska A-landsliðsins, var með Arnari Þór Viðarssyni og Guðna Bergssyni á blaðamannafundi í dag en þá fengu fjölmiðlamenn að spyrja þá spjörunum úr.

Eiður Smári Guðjohnsen spilaði í íslenska A-landsliðinu þar til að hann var á 38. aldursári og hann vill ekki heyra á það minnsta að menn séu of gamlir fyrir íslenska A-landsliðið.

Það er ekki von á einhverjum kynslóðaskiptum í landsliðinu ef marka má orð nýju landsliðsþjálfaranna.

Eiður Smári skaut meðal annars aðeins á umræðuna um mögulega endurnýjun í íslenska landsliðinu. Eiður segist ekki ætla að taka þátt í umræðunni um „Gamla bandið“. „Spilað verður á besta liðinu,“ sagði Eiður Smári.

Það var búist við að nýr landsliðþjálfari gæti misst eitthvað af eldri leikmönnum út úr liðinu á þessum tímapunkti en bæði Arnar og Eiður Smári talaði um mikilvægi þess að horfa á getu leikmanna en ekki aldur þeirra.

Eiður Smári talaði einnig um tenginguna við leikmenn liðsins. Hann segir að þetta snúist ekki um að vera vinir og þekkja þá mjög vel, heldur frekar að sjá hvernig þeim líður. Búa til rammana sem þjálfarateymið. Leikmennirnir búa svo til stemninguna og að þjálfararnir gefi þeim tólin.

Eiður Smári Guðjohnsen sagði líka frá því af hverjum hann var ekki tilbúinn að verða aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar eftir EM 2016.

„Ég átti spjall við Heimi 2016 og þá var hugur minn ekki kominn í þjálfun. Löngunin var ekki þá,“ sagði Eiður.

Eiður Smári segir mikilvægt að halda í þjóðarstoltið, vinnusemina. Um riðilinn segir Eiður að þeir komi meira inn á það þegar nær dregur. Þeir vilji halda Íslandi á þeim stalli, ef ekki fara meira upp á við.

Eiður kom líka aðeins inn á samvinnuna við Arnar Þór Viðarsson. „Arnar talar rosalega mikið - en ég kem með nokkra góða punkta,“ sagði Eiður.


Tengdar fréttir

Hver er Arnar Þór Viðarsson?

Arnar Þór Viðarsson hefur verið ráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta til næstu tveggja ára. En hver er Arnar Þór Viðarsson?

Logi ráðinn þjálfari FH

Logi Ólafsson er tekinn við FH í Pepsi Max deild karla og mun stýra liðinu á næstu leiktíð. Eiður Smári Guðjohnsen er hættur hjá félaginu og tekinn til starfa hjá KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×