Enski boltinn

Samkynhneigður úrvalsdeildarleikmaður sendir frá sér nafnlaust bréf

Ísak Hallmundarson skrifar
Samkynhneigður leikmaður í ensku úrvalsdeildinni treystir sér ekki til að koma fram undir nafni.
Samkynhneigður leikmaður í ensku úrvalsdeildinni treystir sér ekki til að koma fram undir nafni. vísir/getty

Samkynhneigður leikmaður í ensku úrvalsdeildinni greinir frá því í opnu bréfi hvernig það er að þurfa að leyna kynhneigð sinni fyrir liðsfélögum. Hann segist enn ekki geta komið fram undir nafni.

Í bréfinu, sem er ætlað knattspyrnusamböndum og aðdáendum, segir hann fótboltann ekki tilbúinn fyrir leikmenn sem eru opinberlega samkynhneigðir og er hræddur við að gefa upp nafn sitt.

„Ég er samkynhneigður, bara það að skrifa það niður í þessu bréfi er stórt skref fyrir mig. Einungis fjölskyldan og nánustu vinir vita af kynhneigð minni. Ég er ekki tilbúinn til að deila því með liðinu mínu eða þjálfurum,“ segir í bréfinu. 

„Hvernig er að lifa svona? Það getur verið dagleg martröð. Það hefur meiri og meiri áhrif á andlega heilsu mína. Mér finnst ég fastur og óttast að ef ég segi sannleikann verði hlutirnir verri.“

Eins og staðan er í dag eru engir opinberlega samkynhneigðir karlkyns atvinnumenn í fótbolta á Englandi. Troy Deeney, leikmaður Watford, telur hinsvegar að það sé að minnsta kosti einn í hverju liði og segist styðja þá til að koma út. Það er því ekki ólíklegt að við munum sjá miklar breytingar í þessum málum í framtíðinni, en nú þegar er byrjuð að eiga sér stað mikil umræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×