Íslenski boltinn

Sjö boltakrakkar hjá Breiðabliki í sóttkví

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Félagssvæði Breiðabliks í Smáranum í Kópavogi.
Félagssvæði Breiðabliks í Smáranum í Kópavogi. vísir/vilhelm

Sjö ungir Blikar eru í sóttkví eftir að hafa verið boltakrakkar á leik Breiðabliks og KR í Pepsi Max-deild kvenna í síðustu viku. Leikmaður Breiðabliks, sem tók þátt í umræddum leik, greindist með kórónuveiruna á fimmtudaginn.

Í gær lagði KSÍ það til að hætt yrði að nota boltakrakka með hefðbundnum hætti á leikjum í meistaraflokkum til minnka líkur á smiti.

Það var þó ekki lagt blátt bann við því og boltakrakki stal meira að segja senunni í leik Víkings og FH í Pepsi Max-deild karla í gær. Hann var þá fljótur að koma boltanum á Óttar Magnús Karlsson áður en hann skoraði þriðja mark Víkinga.

„Maður finnur til með ungu einstaklingunum sem voru boltasækjarar á leik Breiðabliks og KR og eru núna heima í tveggja vikna sóttkví. Við tökum bara ekki áhættuna á að það gerist aftur,“ sagði Eysteinn Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, í samtali við Vísi í dag.

Önnur leið en venjulega var farin við boltavörslu á leik Breiðabliks og Fjölnis á Kópavogsvelli í Pepsi Max-deild karla í gær.

„Við vorum með tvo eldri krakka, sem sóttu boltana fyrir og eftir leik og í hálfleik. Svo var einn fullorðinn sem hélt utan um þetta. Allir voru með hanska og unglingarnir fengu leyfi frá foreldrum sínum. Við komum upp boltastöndum hringinn í kringum völlinn og ég gat ekki séð að þetta hefði haft slæm áhrif á leikinn. Ég tel að þetta sé mjög farsæl lausn í ljósi þess sem hefur gengið á. Við verðum að fara varlega og bregðast við,“ sagði Eysteinn. 

Þeir sem sáu um boltana í leiknum í gær voru sautján ára en venjulega er boltavarsla í höndum eldra árs í 4. flokki karla og kvenna.

Blikar ræddu við KSÍ eftir að hafa fundað um mál boltakrakka innan sinna raða.

„Við ræddum þetta við KSÍ og þetta varð úr. En við tókum enga ákvörðun. KSÍ tók hana. Ég held að önnur félög séu bara ekki búin að átta sig á að þetta geti gerst,“ sagði Eysteinn. 

„Ég skil ekki umræðuna um að þetta sé fáránlegt. Ég tel að þetta sé mjög eðlilegt í ljósi þess sem hefur gerst undanfarna daga. Það er betra að hafa varann á.“


Tengdar fréttir

Jóel boltasækir: „Var bara fljótur að hugsa“

Boltasækir Víkinga svo gott sem lagði upp þriðja mark Víkinga í 4-1 sigri á FH í leik liðanna í Pepsi Max deild karla í kvöld. Vísir ræddi við drenginn að leik loknum.

Klara um frestanir: „Vita allir að svig­rúmið er ekki mikið“

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að svigrúmið sé lítið, en þó eitthvað, til þess að fresta og endurraða þeim leikjum sem frestaðir hafa verið vegna kórónuveirusmits í leikmannahópum Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna og Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla.

Kópavogsvelli

KR átti aldrei möguleika á Kópavogsvelli í kvöld. Lokatölur 6-0 Breiðablik í vil.

Fimm leikjum frestað vegna smitsins

KSÍ hefur frestað fimm leikjum eftir að leikmaður Breiðabliks í fótbolta kvenna greindist með kórónuveirusmit. Ekki stendur til að fresta öðrum leikjum en leikjum Breiðabliks og KR í Pepsi Max-deild kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×