Íslenski boltinn

Fjögur af síðustu fimm komið gegn Fylki | Sjáðu sigurmarkið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Damir var hinn rólegasti eftir leik þrátt fyrir að hafa tryggt Blikum öll þrjú stigin.
Damir var hinn rólegasti eftir leik þrátt fyrir að hafa tryggt Blikum öll þrjú stigin. Mynd/Stöð 2 Sport

Varnarjaxlinn Damir Muminovic tryggði Breiðabliki 1-0 sigur á Fylki í Pepsi Max deild karla í fótbolta í gær er liðin mættust í Lautinni í Árbænum.

„Ég skora ekki oft en fyrir mér skiptir engu máli hver skorar, ég vill bara vinna,“ sagði Damir um sigurmark gærkvöldsins.

Damir – sem skorar þó eflaust meira en margir – hefur ekki beint farið mikinn fyrir framan mark andstæðinganna síðan hann gekk í raðir Breiðabliks. Damir er meira fyrir að láta verkin tala á eigin vallarhelming þar sem hann hefur verið einn allra besti varnarmaður Pepsi Max deildarinnar undanfarin ár.

Frá árinu 2014 hefur miðvörðurinn skorað átta mörk í deild og bikar í samtals 138 leikjum. Það sem gerir mark gærdagsins sérstakt er sú staðreynd að fjögur af síðustu fimm mörkum hans hafa komið gegn Fylki.

Klippa: Sigurmark Blika gegn Fylki

Sumarið 2016 skoraði Damir tvö mörk í tuttugu leikjum, bæði gegn Fylki.

Í fyrri leik liðanna þá tryggði hann Blikum 2-1 sigur. Fór leikurinn fram í Lautinni í Árbænum og skoraði Damir þegar tæpar tíu mínútur voru eftir. Nær alveg eins og í gær.

Í síðari leik liðanna kom hann Blikum yfir þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en Emil Ásmundsson jafnaði metin fyrir Fylki skömmu síðar.

Síðasta sumar skoraði Damir eitt þriggja marka Blika – aftur í Lautinni – í ótrúlegu 4-3 tapi. Skoraði Damir í upphafi síðari hálfleiks og jafnaði metin í 2-2. Það dugði ekki til að þessu sinni en Blikar fengu á sig tvö mörk áður en Thomas Mikkelsen minnkaði muninn undir lok leiks.

Þarna á milli er svo eitt mark í 4-2 sigri Breiðabliks á KA sumarið 2017.

Af þeim átta mörkum sem Damir hefur skorað þá hafa sex þeirra tryggt Blikum annað hvort jafntefli eða sigur. Geri aðrir betur.

Klippa: Damir í viðtali eftir leik

Blaðamaður vissi ekki af þeirri staðreynd að fjögur af síðustu fimm mörkum hefðu verið gegn Fylki og ef marka má viðtalið þá vissi Damir það ekki heldur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.