Erlent

Ósátt og undrandi yfir ákvörðun Trump

Andri Eysteinsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í Nuuk á Grænlandi fyrr í vikunni.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í Nuuk á Grænlandi fyrr í vikunni. Mynd/TV 2, Danmörku.
Forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, segist vera ósátt og undrandi yfir ákvörðun Bandaríkjaforseta, Donald Trump, að aflýsa fyrirhugaðri heimsókn hans til Danmerkur í byrjun næsta mánaðar. TV2 í Danmörku greinir frá.

Trump var væntanlegur í opinbera heimsókn annan og þriðja dag septembermánaðar en aflýsti henni skyndilega seint í gærkvöldi. Sagði hann ástæðuna vera þá að Mette Frederiksen hefði sýnt fram á að hún hefði engan áhuga á að hefja viðræður um kaup Bandaríkjanna á Grænlandi.

Sjá einnig: Hættir við heimsókn til Danmerkur því hann fær ekki að kaupa Grænland

Mette Frederiksen ræddi málið á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn í dag.

„Okkur bárust skilaboð frá Hvíta húsinu seint í gærkvöld. Ef þú spyrð hvort það sé óvanalegt að fresta með svo skömmum fyrirvara er svarið já,“ sagði danski forsætisráðherrann sem tók við embætti fyrr á árinu.



Tíst forseta Bandaríkjanna þar sem hann heitir því að reisa ekki Trump-turn á Grænlandi
Frederiksen sagði einnig á blaðamannafundinum að atburðir gærkvöldsins hefðu engin áhrif haft á afstöðu hennar til hugmynda Trump um Grænlandskaup.

„Uppi hafa verið hugmyndir um kaup á Grænlandi en Kim Kielsen [forsætisráðherra Grænlands] hefur hafnað þeim og ég er að sjálfsögðu á sama máli,“ sagði Frederiksen en Kielsen hafnaði því ítrekað í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 að Grænland væri til sölu.

Mette sagði þá einnig að atburðir síðustu daga myndu ekki hafa áhrif á samband ríkjanna. Sagðist hún vonast eftir því að samvinna Dana og Bandaríkjamanna myndi aukast á næstu árum og saman gætu ríkin leyst áskoranir sem liggja fyrir. Frestun heimsóknar Trump breyti því ekki.

Sagður barnalegur og sakaður um virðingarleysi

Trump greip, eins og oft áður, til samfélagsmiðilsins Twitter í gær þegar hann greindi heimsbyggðinni frá því að ekki yrði af heimsókninni. Í kjölfarið hafa sprottið upp miklar þverpólitískar umræður um Bandaríkjaforseta.

Fólk úr öllum flokkum gagnrýnir „virðingarleysi“ forsetans þar á meðal er þingforsetinn fyrrverandi Pia Kjærsgaard, róttæki vinstriflokksmaðurinn Morten Østergaard auk fleiri þingmanna og annarra stjórnmálamanna.

Sjá einnig: Danskir stjórnmálamenn furða sig á óvæntri ákvörðun Trump

Það eru þó ekki bara danskir sem er ósáttir með gjörðir forseta. Fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku gagnrýnir forsetann harðlega og segir forsetann haga sér eins og barn.





Núverandi sendiherra, Carla Sands, segir þó að þrátt fyrir frestun fundarins virði Trump Dani og kunni að meta þá. Hann hlakki til að funda í framtíðinni með góðum vinum sínum Dönum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×