Erlent

Hættir við heimsókn til Danmerkur því hann fær ekki að kaupa Grænland

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna AP/Alex Brandon
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur aflýst fundi sínum með Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur. Ástæðan er sú að Fredriksen hefur tekið fálega í hugmyndir forsetans um að festa kaup á Grænlandi.

Ítarlega hefur verið fjallað um áhuga Trump að kaupa Grænland í heimspressunni. Áætlað var að Trump myndi heimsækja Danmörku í byrjun september en miðað við tíst sem Bandaríkjaforseti birti fyrir miðnætti að íslenskum tíma má ætla að lítið verði af þeirri heimsókn.

Rætt var við leiðtoga Grænlendinga í kvöldfréttum Stöðvar 2 sem átti fund með öðrum forsætisráðherrum Norðurlanda í Hörpu, og hans skilaboð til Trumps eru skýr:

„Ég hef sagt það margoft: Grænland er ekki til sölu. Grænland er ekki til sölu.“

Í frétt AP fréttaveitunnar kemur fram að áætlað hafi verið að Donald Trump myndi heimsækja Danmörku og Pólland eftir tvær vikur.

„Danmörk er mjög sérstakt land með mögnuðu fólki, en í ljósi ummæla Mette Frederiksen forsætisráðherra, að hún hefði engan áhuga að ræða kaup á Grænlandi, ætla ég að fresta um einhvern tíma fyrirhuguðum fundi okkar sem fara átti fram eftir tvær vikur...“

Í öðru tísti þakkar forsetinn Mette síðan fyrir tíma- og peningasparnað með því að tala hreint út um málið og segist hann hlakka til að hitta hana við annað tækifæri.

 


Tengdar fréttir

Danir hæðast að áhuga Trump á að kaupa Grænland

Aprílgabb á röngum árstíma og merki um að Trump sé endanlega genginn af göflunum er á meðal þess sem danskir stjórnmálamenn hafa sagt um fréttir af áhuga hans á að kaupa Grænland.

Trump staðfestir áhuga á Grænlandskaupum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur staðfest fregnir þess efnis að hann hafi áhuga á því að Bandaríkin festi kaup á Grænlandi. Hann segir þó að möguleg kaup séu ekki í forgangi hjá ríkisstjórn hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×