Enski boltinn

Fékk nóg þegar stjórnendur bönnuðu honum að spila ákveðnum leikmönnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Paul Scholes líkaði ekki við afskiptasemi stjórnarmanna Oldham
Paul Scholes líkaði ekki við afskiptasemi stjórnarmanna Oldham vísir/getty
Paul Scholes átti ekki farsæla byrjun á þjálfaraferlinum. Hann tók við liði Oldham þann 11. febrúar síðast liðinn en hætti 31 degi síðar.

Það hafa verið alls konar sögusagnir um brotthvarf Scholes, sem tók þá ákvörðun sjálfur að hætta. Hann er meðal annars sagður hafa tilkynnt um það að hann væri hættur með textaskilaboðum.

Scholes var á meðal gesta hjá BT Sport í umfjöllun um leik Manchester United um helgina og var þá rætt við Scholes um tíma hans hjá Oldham.

„Áður en ég tók við hafði ég heyrt helling af sögum um að stjórnendur væru að skipta sér af,“ sagði Scholes.

„Fyrstu þrjár vikurnar voru nokkrir litlir hlutir. Mér var ekki sagt hverjum ég mætti spila og hverjum ekki en það voru litlar vísbendingar hér og þar.“

„Ég er ekki svo heimskur að hafa ekki áttað mig á því hvað þeir voru að reyna að gera.“

Oldham, sem leikur í D-deildinni á Englandi, vann aðeins einn leik af sjö undir stjórn Scholes.

„Í síðustu vikunni þá komu upp mál með tvo af leikmönnunum. Reynda atvinnumenn sem mér fannst ekki eiga skilið að það væri komið fram við þá eins og félagið ætlaði sér.“

„Mér líkar mjög vel við leikmennina og ber mikla virðingu fyrir þeim. Ég hefði gert hvað sem er fyrir þá. En þegar stjórnendur koma inn og segja mér að ég megi ekki spila þessum leikmanni þá var kominn tími fyrir mig til að fara.“

„Það kom bara upp einu sinni en það þýddi að komið var að endalokum,“ sagði Scholes.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×