Enski boltinn

Scholes sagði upp í gegnum WhatsApp

Paul Scholes var ekki lengi við störf.
Paul Scholes var ekki lengi við störf. vísir/getty
Manchester United-goðsögnin Paul Scholes sagði óvænt upp í gær sem knattspyrnustjóri D-deildarliðsins Oldham Athletic eftir aðeins 31 dag og sjö leiki í starfi.

Scholes sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem að hann sagðist vonsvikinn að þurfa að grípa til þessara ráða en hann vonaðist til að stýra liðinu að minnsta kosti í það hálft annað ár sem til stóð samkvæmt ráðningarsamningnum.

Miðjumaðurinn magnaði hefur stutt Oldham allt frá barnæsku en í sömu yfirlýsingu skaut hann lúmskt á Abdallah Lemsagam, stjórnarformann og eiganda félagsins, og sagði að hann hefði ekki fengið að stýra Oldham-liðinu án afskipta eins og samið var um.

Samkvæmt heimildum Sky Sports fundaði Scholes hvorki með Lemsagam né hringdi í eigandann heldur sagði hann upp með textaskilaboðum í gegnum smáforritið WhatsApp.

Scholes er sagður ekki hafa rætt við einn einasta mann í stjórn Oldham áður en að hann tók ákvörðunina að senda uppsagnarbréfið sitt með þessum hætti.

„Oldham er vonsvikið með þessa ákvörðun Paul að hætta og ástæða hans kemur á óvart. Félagið studdi Paul algjörlega og gaf honum allt sem beðið var um án þess að hann kvartaði. Hann gaf engum tækifæri til að ræða vandamálin. Hann sagði bara upp með textaskilaboðum og hefur síðan neitað að ræða málin,“ sagði Lemsagam í yfirlýsingu í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×