Enski boltinn

Aron Einar fékk næsthæstu einkunnina fyrir frammistöðuna gegn Brighton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar reynir skot að marki Brighton.
Aron Einar reynir skot að marki Brighton. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson fékk átta í einkunn hjá WalesOnline fyrir frammistöðu sína í 0-2 útisigri Cardiff City á Brighton í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Aðeins einn leikmaður Cardiff fékk hærri einkunn hjá WalesOnline en Aron. Það var Nathaniel Mendez-Laing sem skoraði fyrra mark velska liðið. Hann fékk níu í einkunn.

Í umsögn WalesOnline um Aron segir að hann hafi stjórnað miðjunni áður en hann var tekinn af velli snemma í seinni hálfleik. Framlag hans hafi verið mikilvægt og sýnt hvað vantar í liðið þegar hann er ekki með.

Sigurinn var lífsnauðsynlegur fyrir Cardiff í fallbaráttunni. Liðið er nú tveimur stigum frá Brighton sem er í 17. sæti deildarinnar. Brighton á leik til góða á Cardiff.

Í síðustu fjórum umferðunum mætir Cardiff Liverpool (heima), Fulham (úti), Crystal Palace (heima) og Manchester United (úti).

Aron fór af velli á 55. mínútu í leiknum í gær eftir að hafa fengið tak í bakið. Hann ætti að klár fyrir leikinn gegn Liverpool á sunnudaginn.

Aron hefur leikið 24 leiki fyrir Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í vetur og skorað eitt mark. Þetta er hans síðasta tímabil með Cardiff en í sumar gengur hann í raðir Al Arabi í Katar þar sem hann endurnýjar kynnin við Heimi Hallgrímsson.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×