Enski boltinn

Emery ekki smeykur um að missa starfið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Emery á hliðarlínunni í gær
Emery á hliðarlínunni í gær vísir/getty
Hvorki hefur gengið né rekið hjá Arsenal að undanförnu og kalla margir stuðningsmenn félagsins eftir því að Unai Emery, stjóri liðsins, verði látinn taka pokann sinn. Emery svaraði þessum gagnrýnisröddum eftir enn eitt tapið þar sem liðið tapaði 2-0 fyrir Leicester í gær.

„Við þurfum tíma og við þurfum þolinmæði. Við höfum skipt um marga leikmenn og við erum með unga leikmenn. Við vitum að við erum í krefjandi aðstæðum,“ sagði Emery og var um leið spurður að því hvort hann tryði því að Arsenal stæði á bak við hann.

„Já. Fyrir mig sem þjálfara snýst þetta um að við höldum áfram að bæta okkur með okkar leikmönnum. Ég er búinn að tala við félagið um að halda ró sinni. Við verðum gagnrýndir en ég veit að það er hluti af mínu starfi. Ég hef oft lent í því. Þegar við vinnum eru allir ánægðir og þegar við töpum eru allir ósáttir. Það er eðlilegt.“

Þrátt fyrir tapið gegn Leicester vill Emery meina að lið hans hafi tekið framförum með spilamennskunni.

„Við verðum að róa okkur niður og halda áfram að bæta leik okkar. Í dag komumst við einu skrefi nær því við vorum sterkir varnarlega. Við töpuðum af því að við vorum að spila við mjög gott lið sem er í miklum meðbyr,“ sagði Emery.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.