Enski boltinn

„United mun spila eins og Jose Mourinho lið“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jose Mourinho var rekinn frá Manchester United í desember
Jose Mourinho var rekinn frá Manchester United í desember vísir/getty
Manchester United mun spila eins og lið Jose Mourinho gegn Manchester City í grannaslagnum mikilvæga í kvöld. Þetta segir knattspyrnusérfræðingur Sky Sports, Paul Merson.

Manchester United var niðurlægt á Goodison Park á sunnudag þar sem Gylfi Þór Sigurðsson og félagar unnu 4-0 sigur. Tapið var það sjötta í síðustu átta leikjum United í öllum keppnum.

Í kvöld þarf United liðið að koma til baka og andstæðingurinn gæti vart verið sterkari. Ole Gunnar Solskjær segir leikinn vera fullkominn fyrir United en Merson er ekki sammála.

„Manchester United er ekki mjög gott lið. Það var óþægilegt að horfa á eitt stærsta félag Evrópu sundurspilað af Everton. Þetta var vandræðalegt og leikmennirnir ættu að skammast sín,“ sagði Merson.

„Ég get ekki séð að þeir muni bregðast við. Þessir leikmenn eru ekki nógu góðir til þess að mæta til leiks eina viku og nenna því svo ekki næstu vikuna.“

„Þeim ætti að finnast heiður að spila fyrir þetta félag en í staðin niðurlægðu þeir það.“

Fyrri Manchesterslagurinn endað 3-1 á Etihad vellinum en United náði að halda Liverpool í markalausu jafntefli í febrúar.

Merson segir líklegt að United liðið muni bakka í vörn og reyna að pirra City, taktík sem Jose Mourinho var mikið gagnrýndur fyrir að nota.

„Þið munið horfa á Jose Mourinho lið. Eftir að hann fór hefur þetta snúist í einn risastóran hring og er komið aftur á þann stað að þeir spili eins og Mourinho var gagnrýndur fyrir.“

Leikur Manchester United og Manchester City hefst klukkan 19:00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×