Erlent

Segir Katalóníu geta lýst yfir sjálfstæði í kjölfar kosninganna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Carles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, ávarpaði Katalóna í kvöld með ríkisstjórn sína trygga á bak við sig. Puigdemont er fremst fyrir miðju á myndinni.
Carles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, ávarpaði Katalóna í kvöld með ríkisstjórn sína trygga á bak við sig. Puigdemont er fremst fyrir miðju á myndinni. Vísir/afp
Leiðtogi Katalóníu, Carles Puigdemont, segir að héraðið hafi unnið sér inn rétt til að lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni í kjölfar úrslita kosninganna í dag.

Spænska lögreglan hefur gengið hart fram gegn kjósendum en íbúar Katalóníu hafa reynt að kjósa um sjálfstæði héraðsins í dag. Lögregluþjónar hafa til að mynda skotið gúmmískotum í fólk við kjörstaði og barið það með kylfum en yfir 800 kjósenda hafa særst í átökunum.

Evrópusambandið geti ekki haldið áfram að „horfa í hina áttina“

Puigdemont sagði tækifæri hafa gefist til einhliða sjálfstæðisyfirlýsingar eftir niðurstöður kosninganna í dag en ávarpi hans var sjónvarpað um gjörvalla Katalóníu í kvöld, að því er fram kemur í frétt BBC. Gríðarlegur fjöldi Katalóna safnaðist saman í miðborg Barselóna, höfuðborgar héraðsins, eftir að kjörstaðir lokuðu.

„Með þessum degi vonar og þjáningar hafa íbúar Katalóníu öðlast rétt til sjálfstæðs ríkis í formi lýðveldis,“ sagði Puigdemont.

„Ríkisstjórn mín mun á næstu dögum senda niðurstöður kosninganna í dag til katalónska þingsins, þar sem vald fólksins er, svo þeim geti verið beitt í samræmi við löggjöf kosninganna.“

Þá sagði hann Evrópusambandið ekki geta haldið áfram að „horfa í hina áttina.“

Mikill mannfjöldi safnaðist saman á Katalóníutorgi þegar kjörstaðir lokuðu og hlýddu þar meðal annars á ávarp forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy.Vísir/AFP
Ríkisstjórnin kennir Puigdemont um atburði dagsins

Spænska lögreglan lokaði rúmlega 300 kjörstöðum og reyndi víða að fjarlægja kjörgögn. Hún lokaði til að mynda kjörstað í bænum Girona í morgun þar sem Puigdemont sjálfur átti að kjósa. Þá réðst hún inn á fjölda annara kjörstaða og hafði á brott með sér kjörkassa.

Sjá einnig: Yfir 760 særðir í Katalóníu: „Það segja allir: Franco er genginn aftur“

Spænska ríkisstjórnin kennir Puigdemont um atburði dagsins, segir þá óskiljanlega og hafa skorað á Katalóna að hætta við atkvæðagreiðsluna. Á blaðamannafundi í kvöld sagði forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, kosningarnar um sjálfstæði Katalóníu „árás á réttarríkið.“ Hann sagði kosningarnar enn fremur ólöglegar og að flestir Katalóníubúar hefðu ekki kært sig um að taka þátt í þeim.

Þá þakkaði hann lögreglu á svæðinu fyrir störf sín og sagði lögregluþjóna hafa beitt „staðfestu og rósemi“ í átökum við kjósendur.


Tengdar fréttir

Átök í Katalóníu

Minnst ellefu lögregluþjónar og 337 mótmælendur eru særðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×