Erlent

Brutu sér leið inn á kjörstað í Katalóníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Óeirðarlögregluþjónar á Spáni brutu sér leið inn á kjörstað í morgun þar sem forseti Katalóníu ætlaði að greiða atkvæði í atkvæðagreiðslunni um sjálfstæði héraðsins. Til átaka kom á milli lögreglu og fólks sem beið eftir því að geta kosið í kosningunni sem yfirvöld á Spáni segja vera ólöglega. Birgitta Jónsdóttir er í Katalóníu að fylgjast með kosningunni.

Minnst ein kona var flutt á brott af sjúkraflutningamönnum.

Ríkisstjórn Spánar hefur heitið því að koma í veg fyrir kosninguna og segir lögregluþjóna hafa meðal annars lokað fjölda skóla sem nota átti sem kjörstaði. Íbúar hafa þó fjölmennt á kjörstaði, þrátt fyrir aðgerðir lögreglu.

Skipuleggjendur atkvæðagreiðslunnar hafa kallað eftir friðsömum mótmælum við aðgerðum lögreglu. Í borginni Girona, þar sem Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, ætlaði að kjósa hófu starfsmenn að syngja þegar lögreglan braut sér leið inn og lokaði kjörstaðnum.

Hópar fólks víða um Katalóníu ganga nú um götur borga og bæja og kalla: „Votarem, votarem!“ sem þýðir „Við munum kjósa“ á tungumáli Katalóníu. Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar er ekki samhugur meðal íbúa héraðsins um hvort að Katalónía eigi að lýsa yfir sjálfstæði. Hins vegar séu íbúar sammála um það að vilja kjósa.

Katalónía er tiltölulega ríkt svæði í norðausturhluta Spánar með eigið tungumál og menningu. Þar búa um 7,5 milljónir manna. Héraðið nýtur mikils frelsis en er ekki sjálfstætt ríki undir stjórnarskrá Spánar.

Stjórnvöld hafa sent þúsundir lögregluþjóna til Katalóníu til að loka umræddum skólum og jafnvel leggja hald á kjörseðla og margt fleira. Þá hafa skipanir verið gefnar um að loka vefsvæðum sem tengjast atkvæðagreiðslunni.

Hér að neðan má sjá myndbönd sem Birgitta birti á Twitter í morgun. Þar fyrir neðan má sjá beina útsendingu RT. Þar má einnig sjá myndband af lögregluþjónum skjóta gúmmíkúlum að mótmælendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×