Erlent

Tala slasaðra komin upp í 761 í Katalóníu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Spænska lögreglan hefur gengið hart fram gegn kjósendum í dag.
Spænska lögreglan hefur gengið hart fram gegn kjósendum í dag. Vísir/afp
Tala slasaðra fer sífellt hækkandi í átökum í Katalóníu en heilbrigðismálayfirvöld á Spáni hafa nú staðfest að 761 hafi slasast í dag af hendi lögreglu.

Áður hafði verið greint frá því að 465 hefðu slasast í átökum milli mótmælenda og lögreglu en í yfirlýsingu á Twitter-reikningi sínum fyrr í dag sagði Ada Colau, borgarstjóri Barselóna, yfir 460 manns hafa særst.

Þá krafðist hún þess að lögregla láti tafarlaust af aðgerðum gegn „varnarlausum íbúum“ Katalóníu. Á sjöunda tímanum í kvöld var greint frá auknum fjölda slasaðra, en hópur þeirra telur nú 761.

Spænska lögreglan hefur gengið hart fram gegn kjósendum en íbúar Katalóníu hafa reynt að kjósa um sjálfstæði héraðsins í dag. Lögregluþjónar hafa til að mynda skotið gúmmískotum í fólk við kjörstaði og barið það með kylfum.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, á blaðamannafundi í Madríd, höfuðborg landsins, í dag.Vísir/AFP
Sjá einnig: Átök í Katalóníu

Á blaðamannafundi í kvöld sagði forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, kosningarnar um sjálfstæði Katalóníu „árás á réttarríkið.“ Hann sagði kosningarnar enn fremur ólöglegar og að flestir Katalóníubúar hefðu ekki kært sig um að taka þátt í þeim.

Þá þakkaði hann lögreglu á svæðinu fyrir störf sín og sagði lögregluþjóna hafa beitt „staðfestu og rósemi“ í átökum við kjósendur.




Tengdar fréttir

Átök í Katalóníu

Minnst ellefu lögregluþjónar og 337 mótmælendur eru særðir.

Börsungar skoruðu þrjú í þögninni

Barcelona er með fullt hús stiga eftir sjö umferðir í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir öruggan 3-0 sigur á Las Palmas á Nou Camp í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×