Erlent

Leiðtogi Bræðralags múslima dæmdur til dauða á ný

Bjarki Ármannsson skrifar
Múhameð Badí, leiðtogi Bræðralags múslima.
Múhameð Badí, leiðtogi Bræðralags múslima. Vísir/AFP
Dómstóll í Egyptalandi hefur dæmt Múhameð Badí, leiðtoga Bræðralags múslima, til dauða ásamt þrettán öðrum meðlimum samtakanna. Þeir eru sakfelldir fyrir að skipuleggja árásir gegn egypska ríkinu.

Að því er kemur fram í frétt BBC eru mennirnir fjórtán sakaðir um að koma á fót stjórnstöð til að stýra ferðum meðlima bræðralagsins um landið. Úrskurðinum hefur verið vísað til æðsta fulltrúa Súnní-múslima í Egyptalandi og er það fyrsta skrefið í átt að því að fá dauðadóminn staðfestan.

Yfirvöld í Egyptalandi hafa tekið hart á íslamistum í landinu frá því að Múhameð Morsí , fyrrverandi forseta, var steypt af stóli í júlí 2013. Morsí er félagi í Bræðralagi múslima, sem var við völd í landinu fyrir byltingu en hefur nú verið bannað af nýjum yfirvöldum og úrskurðað hryðjuverkasamtök.

Sjá einnig: 183 dæmdir til dauða í Egyptalandi

Hefur Múhameð Badí til að mynda hlotið dauðadóm oftar en einu sinni áður, þó dómarnir hafi síðar verið mildaðir í lífstíðarfangelsi.

Ahmad Helmi, verjandi mannanna, segir úrskurðinn „farsakenndan“ og að verjendurnir hafi ekki fengið að ljúka málflutningi sínum áður en dómur var upp kveðinn yfir sakborningunum.


Tengdar fréttir

183 dæmdir til dauða í Egyptalandi

Mohamed Badie, æðsti trúarleiðsögumaður Bræðralags múslima, er hins vegar meðal þeirra sem fengu dauðadóm sinn staðfestan í dag.

Stjórnarherinn ræðst til atlögu gegn Bræðralagi múslima

Stjórnvöld í Egyptalandi réðust í dag inn á heimili forvígismanna Bræðralags Múslima og handtóku tugi forvígismanna samtakanna, en talið er að með þessu sé verið að reyna að spilla fyrir mótmælum sem boðað hefur verið til í landinu dag.

Afsagnar Morsi krafist í Kaíró

Fjölmenn mótmæli gegn Mohammed Morsi Egyptalandsforseta snerust upp í mótmæli gegn Bræðralagi múslíma, hreyfingunni sem Morsi er sprottinn úr.

Einn lést í sprengjuárás í Egyptalandi

Mikil ólga hefur ríkt í Egyptalandi undanfarin misseri eftir að Mohammed Morsi, fyrrverandi forseta landsins, var steypt af stóli og skar upp herör gegn Bræðralagi múslima sem Morsi tilheyrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×