Erlent

Kosningaþátttakan stóð ekki undir vonum sigurvegarans

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Atkvæði talin í Egyptalandi.
Atkvæði talin í Egyptalandi. Nordicphotos/AFP
Þótt herforinginn fyrrverandi, Abdel Fattah el Sissi, hafi fengið meira en 95 prósent atkvæða í forsetakosningunum í Egyptalandi, þá hefur hann orðið fyrir sárum vonbrigðum því kosningaþátttakan var ekki nema 46 prósent.

Þetta er ekki minnsta þátttaka sem mælst hefur í kosningum í Egyptalandi á síðustu árum, en þó minna en þau 52 prósent sem tóku þátt í forsetakosningunum árið 2012, þegar erkióvinur hans, Mohammed Morsi, vann ótvíræðan sigur.

El Sissi steypti Morsi úr forsetastólnum síðastliðið sumar og efndi til kosninga nú, í von um að hljóta yfirgnæfandi stuðning frá þjóðinni.

Kosningaeftirlitsmenn frá Evrópusambandinu hafa fátt við framkvæmd kosninganna að athuga, en gagnrýna á hinn bóginn aðdraganda þeirra og framsetningu.

Abdel fattah el sissi Herforinginn sem nældi sér í forsetaembættið. nordicphotos/AFP
Sigurvegarinn hafi nánast setið einn að kosningaumfjöllun í fjölmiðlum og fjárhagslegir yfirburðir hans, í skjóli ríkissjóðs, hafi óspart verið notaðir gegn þeim eina mótframbjóðanda, sem lagði í slaginn.

Einn kosningaeftirlitsmannanna, Robert Goebbels frá Lúxemborg, segir kosningarnar vissulega hafa verið „frjálsar, en ekki að öllu leyti sanngjarnar“.

Þegar ljóst varð á þriðjudag að kosningaþátttakan væri afar dræm reyndu stjórnvöld að auka hana með því að framlengja kosningarnar um einn dag. Þær hófust á mánudag og áttu að standa fram á þriðjudag en voru framlengdar fram á miðvikudaginn.

Á þriðjudaginn hótuðu stjórnvöld fólki sektum mætti það ekki á kjörstað. Áttu sektirnar að nema jafnvirði tæpra átta þúsund króna, sem er nokkuð há upphæð fyrir almenning í Egyptalandi. Einnig buðu stjórnvöld fólki ókeypis ferðir á kjörstað, bæði með strætisvögnum og lestum.

Mótframbjóðandinn eini, vinstrimaðurinn Hamdín Sabahí, viðurkenndi ósigur sinn í gær, en sagði tölur um kosningaþátttökuna engan veginn trúverðugar: „Þetta er móðgun við greind Egypta.“

Morsi situr nú í fangelsi ásamt þúsundum félaga sinna úr Bræðralagi múslima. Hundruð þeirra hafa verið dæmd til dauða. El Sissi hefur óspart beitt ríkisvaldinu til þess að bæla niður samtökin, banna starfsemi þeirra og hóta liðsmönnum frekari refsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×