Erlent

Réttarhöldum yfir Morsi frestað vegna þoku

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Múhammed Morsí, fyrrverandi forseti Egyptalands.
Múhammed Morsí, fyrrverandi forseti Egyptalands. Fréttablaðið/AP
Múhammed Morsi, fyrrverandi forseti Egyptalands, komst ekki til réttarahalda í Kaíró í morgun vegna veðurskilyrða.

Að sögn embættismanns, sem AP fréttastofan ræddi við, var ekki hægt að flytja hann til Kaíró með þyrlu frá fangelsi skammt frá Alexandríu vegna þoku þar við strendur Miðjarðarhafsins.

Réttarhöldunum hefur því verið frestað til 1. febrúar.

Í þessum réttarhöldum sætir Morsi ákærum, ásamt 14 félögum sínum í Bræðralagi múslima, fyrir að hafa hvatt stuðningsmenn sína til ofbeldisverka gagnvart mótmælendum fyrir utan forsetahöllina í Kaíró í desember árið 2012, þegar Morsí hafði verið forseti í hálft ár. Að minnsta kosti tíu manns létu þar lífið og hundruð særðust.

Tvö önnur dómsmál hafa verið höfðuð á hendur Morsí, en honum var steypt af stóli í júlí síðastliðnum af her landsins.

Bráðabirgðastjórnin, sem tók við völdum, hyggst efna til kosninga á næstu mánuðum, bæði þing- og forsetakosninga auk þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×