Upp­gjörið: ÍA - KR 2-1 | Heima­menn unnu upp­gjör gömlu stór­veldanna

Sverrir Mar Smárason skrifar
Viktor Jónsson skoraði fyrra mark ÍA.
Viktor Jónsson skoraði fyrra mark ÍA. Vísir/Hulda Margrét

ÍA vann í kvöld góðan 2-1 sigur gegn KR á heimavelli í Bestu deild karla. Mörkin létu bíða eftir sér en að lokum gerðu skagamenn tvö en gestirnir aðeins eitt. Fyrsti sigur ÍA á KR í efstu deild síðan 2016 raunin.

Fyrri hálfleikurinn var líflegur þrátt fyrir markaleysi. Skagamenn höfðu yfirhöndina og sköpuðu sér fleiri marktækifæri en það var hinn gagnrýndi Guy Smit sem algjörlega hélt KR-ingum við efnið.

KR-ingar voru nokkuð bitlausir og það eina sem kom frá þeim voru langskot sem skagamenn réðu vel við. Viktor Jónsson gat skorað með skalla eftir sendingu frá Arnóri Smárasyni en skallinn rétt framhjá. Jón Gísli Eyland og Hilmar Elís Hilmarsson fengu báðir tvo góða sénsa en tókst ekki að nýta þá, staðan í hálfleik markalaus, 0-0.

Síðari hálfleikur var aðeins lokaðari en sá fyrri. Leikurinn varð að einhverskonar stöðubaráttu og miðjumoði. Enn kom lítið út úr fínum stöðum sem gestirnir komust í en nú sköpuðu skagamenn sér minna líka.

Það var ekki fyrr en á 86. mínútu sem Viktor Jónsson braut ísinn með sínu áttunda marki í deildinni. Arnór Smárason setti pressu á Alex Þór og kom boltanum til Steinars Þorsteinssonar. Hann lagði boltann út á Viktor sem setti hann örugglega í fjærhornið með góðu skoti af vítateigslínu.

Nokkrum mínútum síðar voru heimamenn komnir í 2-0. Johannes Vall tók þá frábæra hornspyrnu inn í miðjan teig KR þar sem Marko Vardic, miðjumaður ÍA, skallaði boltann í netið.

KR-ingar gerðu sóknarskiptingar og reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn. Það tókst þeim með marki frá fyrrum leikmanni ÍA, Eyþóri Wöhler, á 95. mínútu. Það kom löng sending fyrir markið sem Árni Marinó, markvörður ÍA, misreiknaði illa og boltinn að lokum af Eyþóri og í autt markið. Gestirnir komust ekki lengra og lokatölur því 2-1 fyrir ÍA sem komst með sigrinum upp í 4. sæti deildarinnar.

Atvik leiksins

Fyrsta markið frá Viktori Jóns. Það leit í raun allt út fyrir það að þessi leikur myndi enda í markalausu jafntefli en þarna steig markaskorari ÍA upp og skoraði mark sem er kannski úr karakter fyrir hann, skot fyrir utan teig, þar sem hann er vanur að skora mörkin innan úr teignum. Hleypti lífi í lokamínúturnar.

Stjörnur og skúrkar

Guy Smit hefur verið mikið gagnrýndur en hann átti flottan leik í dag og var langt frá því að vera vandamál KR. Varði oft á tíðum mjög vel, hélt liðinu í leiknum og dreyfði boltanum vel.

Hilmar Elís Hilmarsson flottur í hjarta varnarinnar í sínum öðrum leik fyrir liðið á ferlinum.

Viktor Jónsson var með yfirhöndina yfir unga hafsenta KR allan leikinn og skoraði fyrsta markið.

Við verðum að kalla eftir meira framlagi frá mönnum eins og Aroni Sig, Atla Sigurjóns og Theódóri Elmari. Aron Sig reyndi 10-12 skot en ekkert þeirra var líklegt, hinir tveir sáust lítið.

Dómarinn

Vel dæmdur leikur hjá Pétri heilt yfir. Hefði getað gefið Oliver Stefáns seinna gula spjaldið eftir tæklingu í síðari hálfleik en sleppti honum. Mínútu síðar var honum skipt útaf.

Stemning og umgjörð

Fín stemning á þessum leik þrátt fyrir leiðinlegt veður. Heyrðist þó furðu lítið í KR-ingum, stutt síðan það var mikil stemning þar á bæ. Stúkan var full aldrei þessu vant á skaganum. Líklega hafði veðrið eitthvað að segja um það. Umgjörðin á Akranesi góð, fanzone og nýtt stuðningsmannalag.

Viðtöl

Gregg Ryder: Við þurfum að koma okkur aftur á sigurbraut

Það gengur illa hjá lærisveinum Greggs Ryder.Vísir/Anton Brink

„Það er erfitt að segja. Fyrsta markið kemur á 86. mínútu og mér fannst við ekki eiga okkar besta leik en mér fannst við verjast vel. Það var það sem við þurftum að bæta. Það var kafli í fyrri hálfleik sem var frekar tæpur en eftir það vorum við flottir og ég var sáttur. Það var erfitt að fá mark á sig svona seint í leiknum,“ sagði Gregg, þjálfari KR.

„Við fengum fullt af stöðum til þess að skapa okkur færi en vorum svekktir að hafa ekki skapað meira eða klárað 1-2 færi. Þegar þúr kemur hingað færðu ekki marga sénsa og okkur vantaði betri sendingu eða betra skot í þeim sénsum sem við fengum.“

KR hefur nú tapað tveimur leikjum í röð og Gregg vill snúa því við sem fyrst.

„Við þurfum að koma okkur aftur á sigurbraut. Eina leiðin í gegnum erfiða kafla er að halda áfram að leggja sig fram. Strákarnir gáfu allt sem þeir gátu, það er engin spurning. Verð að gefa þeim það en þetta bara datt ekki fyrir okkur í dag,“ sagði Gregg að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira