Erlent

Felldu hátt­settan byltingarvörð í loft­á­rás í Damaskus

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísrelsk herþota yfir Gasaströndinni. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Ísrelsk herþota yfir Gasaströndinni. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AP/Leo Correa

Ísraelar gerðu í morgun loftárás á Damaskus, höfuðborg Sýrlands, og eru þeir sagðir hafa fellt minnst einn háttsettan meðlim byltingarvarða íranska hersins. Ísraelar gera reglulega árásir í Sýrlandi, sem beinast iðulega gegn Írönum þar, en árásir að degi til eru sjaldgæfar.

Byltingarverðir Íran, sem er stærsta og valdamesta deild hers landsins, heyrir eingöngu undir Ayatollah Ali Khamenei, æðstaklerk Íran, sem stjórnar landinu. Þeir hafa lengi verið með viðveru í Sýrlandi og hafa þar stutt Bashar al-Assad, forseta, gegn uppreisnarmönnum.

Hersveitir þessar flytja þar að auki vopn til vígahópa sem yfirvöld í Íran styðja víðsvegar um Mið-Austurlönd, eins og Hesbollah í Líbanon og Sýrlandi, Húta í Jemen og aðra hópa í Írak.

Aukinn kraftur hefur þó verið settur í árásir Ísraela í Sýrlandi og í Líbanon á undanförnum vikum og hafa þær verið banvænari en áður.

Sjá einnig: Felldu annan hátt­settan á leið í jarðar­för

Myndefni frá Damaskus sýnir að íbúðarhús virðist hafa hrunið í árásinni. Heimildarmaður Reuters í Damascus segir umrætt hús hafa verið notað af írönskum hernaðarráðgjöfum í Sýrlandi. AFP fréttaveitan vísar í íranska miðla, sem segja tvo meðlimi Byltingarvarðanna hafa fallið í árásinni.

Syrian Observatory for Human Rights, samtök sem vakta árásir í Sýrlandi, segja fimm hafa fallið í árásinni. Leiðtogar samtaka sem tengjast Íran hafi verið á fundi í húsinu. Íranskir miðlar segja leiðtoga íraksks vígahóps einnig hafa verið í húsinu.

Fregnir hafa einnig borist af særðu fólki.

Mikil spenna

Mikil spenna er í Mið-Austurlöndum þessa dagana og hefur sprengjum verið varpað víða. Frá því Ísraelar hófu mannskæðan hernað sinn á Gasaströndinni hafa ráðamenn víðsvegar um heiminn haft áhyggjur af því að átökin dreifist um Mið-Austurlönd og þar hefur helsta hættan verið á átökum milli Ísraela og Hesbollah. 

Sveitir tengdar Íran hafa einnig gert árásir á bandaríska hermenn í Írak og í Sýrlandi og hefur þeim árásum verið svarað með loftárásum Bandaríkjamanna á Írana í Sýrlandi. Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafa einnig gert árásir á uppreisnarmenn Húta í Jemen, vegna eldflauga- og drónaárása þeirra á fraktskip á Rauðahafi og annarsstaðar undan ströndum Jemen.

Íranar skutu einnig nýverið eldflaugum að Írak og Pakistan en þeir síðastnefndu svöruðu með eigin skothríð á Íran.


Tengdar fréttir

Gerðu árásir á Húta í fjórða sinn á viku

Bandaríkjamenn gerðu í nótt árásir á Húta í Jemen. Það var í fjórða sinn á viku sem eldflaugum er skotið að uppreisnarmönnunum, sem hafa verið að gera árásir á fraktskip á Rauðahafi og Adeanflóa. Árásirnar voru gerðar í kjölfar þess að yfirvöld í Bandaríkjunum skilgreindu Húta sem hryðjuverkasamtök á nýjan leik.

Pakistan svarar fyrir sig

Pakistan svaraði eldflaugaárásum, sem Íran gerði á landið í fyrradag, í sömu mynt í gærkvöldi. Að sögn pakistanskra yfirvalda var spjótunum beint að hryðjuverkahópum, sem lægju í felum í héraðinu Sistan-o-Balochistan sem á landamæri að Pakistan. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×