Enski boltinn

Haaland hefur ekki skorað í átta klukku­tíma í Meistara­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland svekkir sig yfir hlutunum í leik Manchester City og RB Leipzig í Meistaradeildinni í gær.
Erling Haaland svekkir sig yfir hlutunum í leik Manchester City og RB Leipzig í Meistaradeildinni í gær. AP/Matthias Schrader

Norski framherjinn Erling Braut Haaland er orðinn svo kaldur fyrir framan markið í Meistaradeildinni að hann skorar ekki einu sinni á móti uppáhaldsmótherjum sínum.

Haaland hefur raðað inn mörkum á móti RB Leipzig í Meistaradeildinni en ekki í gær. Manchester City vann reyndar 3-1 sigur á RB Leipzig en Haaland gekk enn á ný af velli án þess að ná að skora. Hann hafði skoraði fimm mörk þegar hann mætti Leipzig síðast í mars.

Haaland reyndi sex skot í leiknum en allt án árangurs. Bara tvö af þessum skotum hans hittu markið. Besta færið fékk hann eftir hálftíma leik en klúðraði.

Þetta var fimmti Meistaradeildarleikurinn í röð þar sem Haaland kemst ekki á blað. Liðið er að vinna leikina og þetta er því kannski ekki mikið áhyggjuefni fyrir meistarana.

Haaland skoraði átta mörk í fimm fyrstu leikjum sínum í Meistaradeildinni og er með 35 mörk í 32 leikjum í keppninni.

Þess vegna þykir það stórfrétt að þessi miklu markaskorari sé ekki búinn að skora í næstum átta klukkutíma í Meistaradeildinni eða nákvæmlega í 476 mínútur. Honum vantar aðeins fjórar mínútur í að hafa ekki skorað í átta klukkutíma inn á vellinum.

„Hann fékk færi og tók þátt í leiknum. Hann stóð sig vel og var góður,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, við TV 2 eftir leikinn.

Það er líka ekki eins og Haaland sé ekki að skora í leikjum á tímabilinu því hann er þegar kominn með átta mörk í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Síðasta markið hans í Meistaradeildinni kom á móti Bayern München 19. apríl 2023 en þetta var seinni leikur átta liða úrslitanna.

Haaland skoraði ekki í undanúrslitaleikjunum á móti Real Madrid, ekki í úrslitaleiknum á móti Internazionale og hefur ekki skoraði í fyrstu tveimur leikjum riðlakeppninnar á móti Rauðu Stjörnunni og Leipzig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×