Enski boltinn

Man United biðst af­sökunar að hafa boðið dæmdum barna­níðing á leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Geoff Konopka stýrði kvennaliði Man United áður en hann var dæmdur í fangelsi.
Geoff Konopka stýrði kvennaliði Man United áður en hann var dæmdur í fangelsi. Manchester United

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur einokað fyrirsagnir í flestum fjölmiðlum síðustu daga og ekki vegna afreka liðsins inn á knattspyrnuvellinum. Ekki varð umtalið minna þegar í ljós kom að félagið hefði boðið dæmdum barnaníðing á leik hjá kvennaliði félagsins á síðustu leiktíð. Man United hefur beðist afsökunar á athæfinu.

Mál Mason Greenwood var í brennidepli fyrr í sumar þegar það virtist sem Man United ætlaði að taka hann inn í leikmannahóp sinn á nýjan leik. Greenwood var ásakaður um tilraun til nauðgunar ásamt því að hafa beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi. Hann var á endanum lánaður til Getafe á Spáni.

Þá hefur Antony verið í fréttunum undanfarið eftir að fyrrverandi kærasta hans ásakaði Brasilíumanninn um að beita sig líkamlegu ofbeldi á meðan samband þeirra stóð yfir. Leikmaðurinn neitar sök.

Ofan á allt þetta þá féll markaðsvirði félagsins um fleiri milljarða og kvennalið félagsins bauð dæmdum barnaníðing á leik undir lok síðustu leiktíðar.

Geoff Konopka þjálfari kvennaliðs Manchester United frá 1983 til 2001. Árið 2011 var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi og settur á lista yfir kynferðisbrotamenn í áratug eftir að hafa verið dæmdur fyrir samtals 19 brot gegn stúlkum yngri en 16 ára.

Það virðist sem enginn hjá Man United hafi vitað af dómnum en Konopka var boðið að horfa á kvennalið félagsins spila við Everton. Á fimmtudag gaf félagið út yfirlýsingu þess efnis að það hefði nýverið fengið upplýsingar um sakfellinguna og hefði verið í sambandi við yfirvöld til að staðfesta upplýsingarnar sem því bárust.

Í stuttri yfirlýsingu sagðist félagið hafa brugðist við með viðeigandi hætti og myndi ekki tengjast Konopka með neinum hætti í framtíðinni. Þá sagðist félagið votta fórnarlömbum samúð sína sem og öllum sem þessir skelfilegu glæpir hafa haft áhrif á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×