Enski boltinn

Sakar United um að hylma yfir með Antony

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antony er sakaður um að hafa beitt fyrrverandi kærustu sína andlegu og líkamlegu ofbeldi.
Antony er sakaður um að hafa beitt fyrrverandi kærustu sína andlegu og líkamlegu ofbeldi. getty/Robbie Jay Barratt

Fyrrverandi kærasta Antonys, leikmanns Manchester United, sakar félagið um að hylma yfir með honum vegna ofbeldis sem hún segir hann hafa beitt sig.

Gabriela Cavallin hefur sakað Antony um að hafa beitt sig andlegu og líkamlegu ofbeldi. Hann er til rannsóknar hjá lögreglunni í Sao Paulo í Brasilíu og lögreglunni í Manchester vegna þess.

Cavallin segir að United hafi sent stuðningsfulltrúa leikmanna á hótel í Manchester þar sem Antony á að hafa ráðist á hana 15. janúar. Hún segir að hann hafi skallað sig og hrint henni á rúmið þannig að sílíkonpúði í öðru brjósti hennar færðist til.

Lögmenn Cavallins vilja meina að stuðningsfulltrúinn hafi kallað eftir lækni félagsins til að koma í veg fyrir að hún leitaði sjálf á spítala sem hefði getað vakið upp grunsemdir.

United hefur hafnað ásökunum Cavallins um yfirhylmingu. Félagið sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna máls Antonys. Þar segist félagið meðvitað um þær ásakanir sem hafa verið settar fram á hendur Antony og þá staðreynd að lögreglan sé með málið til skoðunar.

„Þar til frekari upplýsingar berast mun félagið ekki tjá sig meira um málið. Sem félag lítum við málið alvarlegum augum með hliðsjón af mögulegum áhrifum sem þær og umfjöllun um svona mál hafa á þolendur ofbeldis,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu United.

Fyrr í vikunni var Antony tekinn út úr brasilíska landsliðshópnum vegna ásakananna. Hann hafnar sök.

United keypti Antony frá Ajax fyrir rúmlega áttatíu milljónir punda í fyrra. Hann hefur leikið 48 leiki fyrir United og skorað átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×